Hönnunarfyrirtækið FÓLK Reykjavík mun opna sýningarrými í miðborg Kaupmannahafnar á morgun þar sem allar vörur fyrirtækisins verða til sýnis fyrir söluaðila og aðra kaupendur hönnunar.
Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu er sýningarrýmið staðsett á Fredericiagade 17 sem er nálægt dönsku konungshöllinni í nágrenni við mörg dönsk hönnunarfyrirtæki og gallerí.
Þá hefur FÓLK stofnað danskt dótturfélag til að stýra sölu alþjóðlega og er sú vinna nú þegar farin að bera árangur en dönsku endursöluaðilarnir Illums Bolighus, Illum og H Skjalm P hafa tekið vörur FÓLKs til sölu auk Teak Store í New York.
„Markmið fyrirtækisins er að fjölga endursöluaðilum á næstu árum, sérstaklega í Evrópu en einnig Bandaríkjunum og Asíu auk þess að breikka vörulínur byggða á áherslum sjálfbærni og hringrásarhráefnum. Sýn FÓLKs er að hönnun geti haft mikil áhrif á græna umbreytingu og allar vörur sem sýndar eru hafa sterka sögu í því tilliti, bæði með tilliti til hönnunar, vals hráefna og framleiðslu,“ segir í tilkynningu.
Í vikunni mun fyrirtækið síðan breikka línu sína sem byggð er á efni úr gömlum loftpúðum sem hönnuð er af Fléttu. „Hönnunin er nær að öllu leyti gerð úr efnum sem annars hefðu endað í brennslu eða landfyllingu,“ segir í tilkynningu
Fólk Reykjavík var stofnað árið 2017 með það að markmiði að leiða saman hönnun og framleiðslu með áherslu á sjálfbærni og hringrás hráefna.
Fyrirtækið notar náttúruleg og endurunnin hráefni eins og stein, málm, gler, pappír, vottað timbur úr sjálfbært nýttum skógum, endurunnið stál og endurunninn textíl. Úr þessum hráefnum hafa meðal annars verið hönnuð og framleidd borð, hillur, vasar, kertastjakar og ljós.
Fyrirtækið fékk viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2022 á Hönnunarverðlaununum.