Fótboltaland, fyrsti fótbolta-skemmtigarður landsins, opnar í Vetrargarðinum í Smáralind í janúar. Í tilkynningu frá Senu, þar sem greint er frá þessu, segir að um sé að ræða einn glæsilegasta íþrótta-skemmtigarð landsins með fjöldann allan af stafrænum tækjum og þrautum tengt fótbolta. Framkvæmdir eru hafnar á svæðinu.
„Í Fótboltalandi verður hægt að sækja afþreyingu fyrir börn og fullorðna þar sem vinsælasta íþrótt heims er í forgrunni. Með stofnun Fótboltalands er ekki bara verið að uppfylla þarfir fótboltaáhugafólks heldur einnig mæta vaxandi eftirspurn eftir fjörugri afþreyingu með hreyfingu sem hentar öllum aldurshópum,“ segir í fréttatilkynningu.
Þar verði að finna hátt í tuttugu mismunandi þrautabrautir sem skiptist í keppnisbrautir og skemmtibrautir. „Í keppnisbrautunum munu gestir keppast um að fá sem flest stig úr hverri braut og sigra þannig vini eða fjölskyldu í viðkomandi brautum. Í skemmtibrautunum snýst allt um að hafa gaman þó svo að alltaf sé hægt að stilla upp keppni í þeim brautum líka kjósi gestir svo. Í skemmtibrautunum geta fleiri en einn spilað í einu.“
Notast verði við helstu tækninýjungar í Fótboltalandi. Þar megi nefna RFID armbönd sem heldur utan um stig keppanda og stafræn fótboltatæki sem notuð séu á æfingarsvæðum stærstu fótboltaklúbba heims.
Einnig verður hægt að njóta veitinga í Fótboltalandi en í tilkynningunni segir að það verði kynnt betur síðar.