Arne Jacobsen var lykilþátttakandi í innleiðingu módernismans í Danmörku. Hann er einna þekktastur fyrir að hanna formfagra stóla. Frægustu stólarnir hans eru án efa Eggið, Svanurinn, Sjöan, Dropinn og Maurinn sem allir eru klassískir og þekktir víða um heim.

Jacobsen fæddist í Kaupmannahöfn árið 1902. Foreldrar hans, Johan og Poulin, voru af gyðingaættum og vel stæð. Sonurinn ólst upp á fallegu heimili fjölskyldunnar í Kaupmannahöfn. Hann vakti snemma athygli fyrir góða teiknikunnáttu. Hugur hans stóð til myndlistarnáms en móðir hans hvatti hann frekar til að fara í arkitektúr. Úr varð að hann fór í nám í arkitektúr við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn þar sem hann stundaði nám 1924-1927 undir handleiðslu Kay Fisker og Kaj Gottlob sem báðir voru þekktir arkitektar og hönnuðir á þeim tíma.

Á unglingsárum kynntist Jakobsen bræðurunum Mogens og Flemming Lassen, sem báðir urðu síðar þekkt nöfn í danskri byggingarlist. Þessi vinátta styrkti Jakobsen í náminu. Á námsárunum hlaut Arne sína fyrstu viðurkenningu fyrir hönnun stóls fyrir danska sýningarskálann á Heimssýningunni í París árið 1925, sem kennari hans, Kay Fisker teiknaði.

FLÚÐI FRÁ NASISTUM Á ÁRABÁT

Jacobsen vann síðan verðlaun í sérstakri hönnunarkeppni dönsku arkitektasamtakanna 1929 fyrir ,,Hús framtíðarinnar“ sem hann hannaði ásamt vini sínum, Flemming Lassen. Þetta var nýstárlegt, hringlaga glerhús í fullri stærð og með því gáfu höfundarnir mynd af tæknivæddu framtíðarheimili. Hugmyndir þeirra félaga voru m.a. að hægt væri að aka inn í húsið, sigla inn í það á hraðbáti eða lenda á þakinu í einhvers konar þyrlu sem þá voru ekki enn framleiddar. Þetta nútímalega verðlaunahús sýndi svo ekki varð um villst hversu efnilegur hönnuður þessi ungi maður var. Jacobsen hélt áfram að vekja mikla athygli á næstu árum sem arkitekt og hönnuður.

Árið 1943 flúði Jacobsen til Svíþjóðar eins og mörg þúsund annarra danskra gyðinga þegar nasistar, sem höfðu hernumið Danmörku í síðari heimsstyrjöldinni, undirbjuggu að flytja danska gyðinga burt í vinnubúðir. Jakobsen flúði Danmörku að næturlagi á árabát ásamt nokkrum öðrum Dönum af gyðingaættum. Þeir réru bátnum yfir Eyrarsund og komust heilu og höldnu yfir til Svíþjóðar. Hann bjó þar í tvö ár þangað til seinni heimsstyrjöldinni lauk. Hann snéri svo aftur til Listaakademíunnar eftir að stríðinu lauk sem prófessor og kenndi þar árin 1956–1965.

HANNAÐI MARGAR ÞEKKTAR BYGGINGAR

Arne Jacobsen hannaði margar byggingar í Danmörku, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Bretlandi. Eitt stærsta meistaraverk hans sem arkitekts er án efa SAS Royal hótelið í Kaupmannahöfn sem hann hannaði 1956-1960. Byggingin er 22 hæðir og eru 260 herbergi innandyra. Byggingin var fyrsti skýjakljúfur Danmerkur, um 70 metrar að hæð. Málmur og gler spilaði stóra rullu í hönnun hótelsins eins og Jacobsen var orðinn þekktur fyrir. Tvær neðstu hæðirnar eru sökkulbygging, klæddar grænum emaleruðum stálplötum og jarðhæðin inndregin.

Af öðrum þekktum byggingum sem Arne Jacobsen hannaði má nefna Stelling húsið, verslunar- og skrifstofubyggingu á hornlóð við Gamlatorg í miðborg Kaupmannahafnar. Húsið þótti mjög nútímalegt og þykir enn. Neðri hluti þess er gegnsær með samfelldum glerflötum en sá efri klæddur grænum flísum. Á báðum hlutum hússins sveigir framhliðin í mjúkum boga fyrir hornið. Hann hannaði einnig eftirtektarverða bensínstöð við Strandvejen milli Kaupmannahafnar og Gentofte sem er óvenjuleg vegna léttbyggðs skyggnis úr járnbentri steinsteypu sem borið er uppi af einni súlu. Í lok 6. áratugarins teiknaði Arne Jacob- sen hringlaga einbýlishús á strandlóð á Sjálandi sem um margt var líkt framtíðarhúsi hans frá árinu 1929. Arne Jacobsen hlaut auk þess verðlaun fyrir hönnun baðstrandar við Bellevue strandhótelið við Strandvejen í Gentofte. Þá hannaði hann Bellevue leikhúsið í bænum Klampenborg.

SAS Royal

TÍMALAUS OG KLASSÍSK HÚSGÖGN

Arne Jacobsen er eins og áður segir frægastur fyrir að hanna formfagra og klassíska stóla sem margir hverjir hafa orðið heimsfrægir. Hann hannaði stólinn Maurinn 1951, og Sjöuna 1955. Sjöan er mest seldi stóll í sögu húsgagnaframleiðandans Fritz Hansen og hefur selst í fleiri en 7 milljónum eintaka sem gerir hann að einum mest selda stól í sögu húsgagnahönnunar.

Eggið hannaði hann árið 1958 fyrir SAS Royal hótelið í Kaupmannahöfn. Eggið er tímalaus, falleg og klassísk hönnun, þekktur um allan heim og er eftirsóttur hægindastóll hjá þeim sem kjósa gæði og þægindi. Ásamt Egginu hannaði Arne Jacobsen einnig Svaninn og Dropann fyrir hótelið sem eru einnig báðir heimsfrægir stólar.

Jacobsen hannaði ekki bara byggingu SAS Royal hótelsins og stólana heldur einnig teppi þess, lampa, gluggatjöld, borðbúnað og meira að segja hnífapörin. Enn í dag má sjá húsgögn Arne Jacobsen víða í byggingunni og eitt herbergi hótelsins, nr. 606 er varðveitt með öllum upphaflegum húsgögnum og búnaði.

MIKILL FULLKOMNUNARSINNI

Arne Jacobsen var mikill fullkomnunarsinni og hafði mjög háar væntingar til framleiðslufyrirtækja á húsgögnum. Hann átti fund með Fritz Hansen árið 1934 sem markaði upphaf langs og afar farsæls samstarfs og enn þann dag í dag sér Fritz Hansen um að framleiða upphaflega hönnun Arne Jacobsen. Danski hönnuðurinn lést nokkuð óvænt 1971 og var þá með stór verkefni í gangi, m.a. höfuðstöðvar danska seðlabankans, hús danska sendiráðsins í London og nýtt ráðhús í Mainz í Þýskalandi. Fyrrverandi samstarfsmenn hans, arkitektarnir Hans Dissing and Otto Weitling, luku við þessi stóru verkefni í anda Jacobsen.

Þótt Jacobsen hafi verið þekktari sem húsgagnahönnuður en arkitekt þá var sköpun hans á þessum sviðum oft nátengd. Í hönnun hans fléttast saman áhrif frá fagurfræði alþjóðlegs módernisma og danskri hefð. Húsgagnahönnun Jacobsen endurspeglar tilfinningu hans fyrir léttleika og ótrúlega næmt formskyn hans skín í gegn í hverjum hlut. Sem gerir hann að einum merkasta húsgagnahönnuði módernismans.

SAS Royal