Sjónvarpsveita Símans, Sjónvarp Símans frumsýndi í gær sjö leikna íslenska sjónvarpsþætti á einum og sama deginum. Þannig kom bæði út lokaþátturinn af Heima er best, vinsælli þáttaröð eftir Tinnu Hrafnsdóttir ásamt því að ný sex þátta sería um Venjulegt fólk fór í heild sinni í loftið á sama tíma.
Þættirnir eru skrifaðir af Fannari Sveinsyni og Kareni Björgu E. Þorsteinsdóttur ásamt þeim Júlíönu Söru Gunnarsdóttur og Völu Kristínu Eiríksdóttir sem fara einnig með tvö af aðalhlutverkunum. Þáttaröðin segir frá raunum þeirra Júlíönu og Völu í hinu daglega amstri hversdagsleikans en óhætt er að segja að afdrif þeirra séu skrautleg. Þáttaröðin er sú langlífasta þegar kemur að leiknu gamanefni en engin íslensk gamanþáttaröð hefur verið sýnd samfleytt jafn lengi.
Heima er best og Venjulegt fólk eru ekki einu leiknu íslensku þáttaraðirnar sem sýndar hafa verið í ár hjá Símanum en Arfurinn minn með Ladda í aðalhlutverki var sýnd fyrr á þessu ári. Þá nutu samnefndir þættir strákasveitarinnar IceGuys mikilla vinsælda hjá landanum fyrr í vetur.