Ebba Katrín Finnsdóttir er rísandi stjarna í leikhúsheiminum. Hún hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir leik sinni í „Orð gegn orði“ í Þjóðleikhúsinu. Í verkinu er tekist á við spurningar um réttarkerfið, siðgæði, sekt og sönnunarbyrði í tengslum við kynferðisof beldi. Í viðtali við Eftir vinnu viðurkennir hún að hlutverkið hafi reynt á hana andlega og líkamlega, en hún segir það vera gefandi og mikilvægt að skapa umræðu um slík mál á leiksviðinu. Ebba leggur áherslu á að hlúa að eigin heilsu til að geta staðið sterk í þessu krefjandi hlutverki.

Ebba Katrín hefur nú sýnt „Orð gegn orði“ vikulega í meira en ár, og það hefur reynst henni þungbært á köflum. „Það er auðvitað ekki á hverju leikári sem maður tekur svona verkefni að sér, en ég lít á þetta sem mjög nærgöngult og krefjandi hlutverk,“ segir hún. „Ég vissi að þetta yrði erfitt, en það var enn meira krefjandi en ég gerði mér grein fyrir.“ Hún útskýrir að málefnið sé svo vanrækt og hlutverkið reynist henni sem leikkonu vera ákveðið þjónustuhlutverk, þar sem hún verður eins konar farvegur fyrir sársauka annarra. „Það er ekki hægt að standa upp á sviði og segja svona sögur án þess að taka inn það sem er í rýminu,“ bætir hún við.

Til þess að vera betur undir það búin að takast á við slíkt, hefur Ebba leitað sér utanaðkomandi aðstoðar. „Fyrst var ég ein að burðast með þetta og velta því fyrir mér hvernig ég ætti að takast á við allt sem kom til mín og öll skilaboðin sem ég fékk. Ég er jú ekki fagaðili,“ segir hún. „En maður vill að leikhúsið hreyfi við fólki og stuðli að umræðu, svo það er bara á mína ábyrgð að passa upp á mig og eigin heilsu.“

Hún viðurkennir að hafa fundið fyrir aftengingu og dofa, auk streitueinkenna eins og svima, þreytu og doða í höndum. „Þá þurfti ég bara að læra að tækla mig í þessum aðstæðum,“ segir hún. Það tók þó tíma, og hún viðurkennir að hún hefði líklega átt að leita aðstoðar fyrr. „Það þarf ekki að leita langt til að finna sársaukann, því þetta er allt í kringum okkur. Tölfræðin sýnir að ein af hverjum þremur í salnum hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi,“ segir hún. „Ef ég væri að vinna með eitthvað persónulegt frá mér sjálfri gæti ég þetta ekki. En ég set mig í spor annarra og læt samkenndina leiða mig. Þetta er eitthvað djúpt sammannlegt sem sýningin virðist kalla fram.“

Eitt af því sem vakti athygli hennar þegar hún las handritið var hvernig hennar eigin skilningur á mörkunum var flóknari en hún hafði gert sér grein fyrir. „Ég hélt að ég vissi alveg hvar mörkin lægju, en þegar ég fór að skoða þetta nánar, fattaði ég að ég sjálf var líka í drullupollinum og sá ekki öll lögin sem samfélagið er orðið samdauna,“ segir hún. „Ég þurfti bara að kyngja því, kvenréttindakonan sem ég er.“

Viðtalið við Ebbu Katrínu má finna í Jólagjafahandbók Eftir vinnu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta lesið viðtalið í heild hér.