BY Guðbjörg skartgripafyrirtæki hafa hafið samstarf um skartgripalínu sem ber heitið „Gleym-mér-ei“ og mun ágóðinn af henni renna í styrktarsjóð Gleym-mér-ei.
Styrktarsjóðurinn heldur utan um ýmis verkefni í tengslum við missi barns á meðgöngu og í/eftir fæðingu. Skartgripalínan kom út í gær og samanstendur af eyrnalokkum, hálsfesti, hring, nælu og armbandi.
Í tilkynningu frá Gleym-mér-ei segir að hugsunin á bak við skartgripalínuna sé að gefa fólki tækifæri til þess að styðja mikilvægan málstað ásamt því að eignast eða gefa fallegan skartgrip sem gerir fólki kleift að tengja minningu um látinn ástvin við eitthvað áþreifanlegt, en það er oft stór hluti af sorg foreldra sem missa á meðgöngu.