Ódýrt flug og Airbnb hefur líkt og hér á landi þýtt að ferðamönnum sem sækja Holland heim hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum. Samtals komu 19 milljónir ferðamenn til Hollands í fyrra sem er um þremur milljónum fleiri en íbúar landsins. Landið sjálft er meira en helmingi minna en Ísland í ferkílómetrum talið og er eitt þéttbýlasta land veraldar. Samkvæmt opinberum spám er áætlað að ferðmönnum muni fjölga um ríflega 50% næsta áratuginn.

Nú er svo komið að íbúum landsins finnst nóg um og þykir ferðamannastraumurinn sé farin að rýra lífsgæði. Tímaritið The Atlantic greinir frá þessu í grein undir fyrirsögninni Holland og stríðið við túristana.  Kvartanir til sveitarfélaga hafi margfaldast og amast íbúar yfir umferðaröngþveitum og ósæmilegri hegðun drukkinna ferðmanna sem ýmist pissi í póstkassa eða æli í blómabeð.

Amsterdam er sú borg sem verst hefur orðið úti í innrásinni og hafa ráðamenn borgarinnar samþykkt margskonar lög sem ætlað er að spyrna fótum við eyðileggingu ferðamannanna. Þannig hefur hótelum verið bannað að stækka við sig og sektir við ósæmilegri hegðun hafa verið hækkaðar umtalsvert (sektin við að létta á sér undir berum himni í borginni hefur verið hækkuð upp í 130 evrur, jafngildi tæplega 20 þúsund íslenskar króna).

Tíminn sem fólki er heimilt að leigja íbúðir sínar í gegnum Airbnb hefur verið styttur niður í 30 daga. Þá hefur bann verið sett við ýmiskonar ferðamannaþjónustu eins og hjólaleigum og kleinuhringjabúðum. Auk þess hefur verið sett bann á ferðir leiðsögumanna um hið alræmda Rauða hverfi borgarinnar. Þá er í umræðunni að innheimta sérstakt daggjald af þeim sem heimsækja borgina í sólarhring eða skemur, líkt og nýlega hefur verið tekið upp í Feneyjum. Hlutverk Ferðamannaráð Hollands hefur sömuleiðis verið endurskilgreint og er markmið stofnunarinnar ekki lengur að kynna Holland sem áfangastað heldur stjórna ferðamannastrauminum.