„Ég hef aldrei átt bíl lengur en 6 ár og þá sem aukabíl, segir Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kemi ehf. „Það er einhver taug sem strekkist hjá mér þegar fallegar bifreiðar stara á mann og bjóða upp í dans.”

Einn uppáhaldsbíllinn sem Hermann hefur átt um ævina. Mercedes Bens CL 600 árgerð 2007. V12 vél og 600 hestöfl.
Einn uppáhaldsbíllinn sem Hermann hefur átt um ævina. Mercedes Bens CL 600 árgerð 2007. V12 vél og 600 hestöfl.

„Fyrir mann sem er hrjáður af bíladellu þá hefur vinnan gefið mér mikla útrás. Ég hef starfað sem framkvæmdastjóri hjá Bílanausti, Olíufélaginu, N1 og nú Kemi ehf. sem allt eru fyrirtæki sem sinna þjónustu við bíleigendur og þjónustuaðila. Í gegnum þessi störf hef ég bæði ferðast mikið og kynnst fólki sem starfað hefur lengi í bílgreininni í erlendum stórfyrirtækjum,“ segir hann.

„Hér innanlands hef ég kynnst miklum fjölda fólks sem starfar í bílgreininni eða er illa haldið af bíladellu. Þegar ég byrjaði hjá Kemi fyrir 11 árum síðan þá var minna verið að sinna bíleigendum en við gerum í dag. Við bættum við bílavarahlutastarfsemi rétt fyrir Covid og keyptum síðan Poulsen um haustið 2022. Þessar breytingar gerðu það að verkum að við erum nú í meirihluta af okkar starfsemi tengdum bifreiðum,“ segir Hermann.

Mercury Cougar 1969 árgerð sem Hermann flutti inn frá Bandaríkjunum og gerður var upp hér á landi.
Mercury Cougar 1969 árgerð sem Hermann flutti inn frá Bandaríkjunum og gerður var upp hér á landi.

Í gegnum snjóskafla í Ölpunum á fólksbíl á sumardekkjum

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

„Þeir eru ansi margir en ég ætla að nefna tvo bíla samfeðra. Mercedes Benz S550 sem ég keypti nýjan í Bandaríkjunum árið 2007. Hinn er Mercedes Benz CL600, líka 2007 árgerð með V12 vél sem skilaði 600 hestöflum.“

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

„Það er líklega bílferð frá Mílanó til Lúxemborgar árið 1995. Ég og vinur minn Piero Segatta fórum á viðskiptafund til Mílanó að vetrarlagi. Þetta var fyrir tíma leiðsögukerfa og við notuðum því kortabókina góðu. Þar fundum við mun styttri leið en að keyra í gegnum Brenner skarðið. Þessi stytting breytti um 8 klst. ferðalagi í 18 klst. bílferð í gegnum snjóskafla í Ölpunum á fólksbíl á sumardekkjum.

Hermann fór í eftirminnilega ferð til Kaliforníu árið 2008 og ók þar um á Harley Davidsson Electraglide mótorhjóli.
Hermann fór í eftirminnilega ferð til Kaliforníu árið 2008 og ók þar um á Harley Davidsson Electraglide mótorhjóli.

Önnur eftirminnileg akstursferð var farin árið 2008 í Kaliforníu, reyndar á Harley Davidson mótorhjóli, en var afar skemmtileg. Ég ásamt fleirum leigðum okkur Harley Davidsson Electraglide mótorhjól og ókum í nokkra daga um strendur Kaliforniu og upp í fjöllin. Ég tók bifhjólapróf árið 2004, hafði mikið ekið á minni vélhjólum og utan vegar á óskráðum hjólum sem ungur maður.“

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)?

„Benedikt Eyjólfsson.“

En versti bílstjórinn?

„Þeir eru margir.“

Hver er draumabíllinn?

„Aston Martin DB9. Það var einhver tilfinning sem kom með James Bond myndunum sem hefur aldrei alveg horfið. Það er líklega vegna þess að það er ekki mikið aðgengi að svona bílum á Íslandi og örfáir komið á götuna. Það er alltaf spennandi það sem maður hefur ekki prufað og átt.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.