Margir vilja eflaust gera heimili sín notalegri og þægilegri og hafa sumir meðal annars fengið innblástur frá gæludýrum sínum. Fyrirtæki í Bandaríkjunum hefur tekið þessu skrefinu lengra og býður nú upp á hundarúm fyrir fólk.
Fyrirtækið Plufl hannar og selur þessi rúm og kostar stykkið í kringum 68 þúsund krónur. Rúmið var, að sögn Wall Street Journal, ein vinsælasta vara meðal notenda Amazon þessi jól.
Rúmin eru öskjulaga og líta í raun út eins og lítill björgunarbátur. Hægt er að sitja í því á gólfinu og lesa eða leggja sig þar sem rúmið er um 180 cm að lengd.
Fyrirtækið byrjaði fyrst að selja rúmin í fyrra og markaðssetti þau sem heimsins fyrsta hundarúm fyrir fólk. Sala á rúminu var gríðarleg á mjög stuttum tíma en að sögn markaðsúttektar frá Google þá jókst áhugi fólks á þægilegum rúmum um 1.650% árið 2023.
Plufl byrjaði fyrst sem sprotafyrirtæki í apríl 2022 og fékk meira en 290 þúsund dali frá ýmsum bakhjörlum. Í október fengu svo stofnendur þess, Noah Silverman og Yuki Kinoshita, að kynna vöruna með góðum árangri í sjónvarpsþættinum Shark Tank. Að sögn Kinoshita er fyrirtækið nú með fleiri en 10.000 viðskiptavini.
Michael Steer, 41 árs stofnandi húsnæðislánafyrirtækis, er einn þeirra en hann fékk Pufl-rúm í jólagjöf í fyrra. Þegar hann opnaði pakkann hugsaði hann með sér hvað í ósköpunum hann ætti að gera við mannshundarúm. Nú situr rúmið á skrifstofunni hans í Dallas og segist hann sitja í því alla daga. Hann hugleiðir á því í 10 til 20 mínútur og tekur svo 30 mínútna lúr áður en vinnudeginum hans lýkur.