Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Russell Westbrook hefur sett heimili sitt í Los Angeles til sölu á tæplega 30 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 4,2 milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.
Westbrook, sem færði sig um set frá Washington Wizards til LA Lakers fyrir tímabilið í fyrra, keypti fasteignina árið 2018 á 19,75 milljónir dala. Því hefur verð fasteignarinnar hækkað um 10 milljónir dala á fjórum árum.
Samkvæmt AS.com hefur Westbrook staðið að miklum framkvæmdum á húsinu á þessum árum. Þannig hafi hann meðal annars bætt við fjölmörgum frönskum hurðum, hraðviðarparketi og marmaraplötum í eldhúsið.
Húsið er 1250 fermetrar að stærð og stendur á rúmlega tvö þúsund fermetra lóð í Brentwood hverfinu í Los Angeles. Í húsinu má meðal annars finna sex svefnherbergi, bar, vínkjallara, líkamsræktarstöð, kvikmyndahús og sundlaug.