The Wall Street Journal hefur tekið saman hverjir eru skráðir eigendur að dýrustu fasteignunum í grennd við höfuðborg Bandaríkjanna, Washington, D.C.
Stærstu fasteignakaupin á svæðinu áttu sér stað árið 2021 er Dan Snyder, eigandi NFL-liðsins Washington Commanders, keypti 48 milljóna dala fasteign í Alexandria-hverfinu í Virginíu.
Samkvæmt WSJ telst það fremur lítið í samanburði við aðrar höfuðborgir en árið 2020 seldist dýrasta fasteign Lundúna á 272 milljónir dala.
Jonathan Taylor hjá TTR Sotheby’s International Realty, segir í samtali við WSJ að ástæðan fyrir þessu sé að í D.C. séu einungis ríkisstofnanir á meðan aðrar höfuðborgir, eins og Lundúnir, séu einnig miðstöð fjármála- og viðskipta.
Fasteignir í New York, Californiu, Colorado og Suður-Flórída eru mun dýrari. Til að mynda keypti milljarðamæringurinn Ken Griffin 240 milljóna dala þakíbúð í New York árið 2019.
Fasteign Snyder liggur alveg við Potomac-ánna og er um 1.500 fermetrar. Snyder setti húsið á sölu í júní fyrir 60 milljónir Bandaríkjadala en eignin er enn óseld.
Næst dýrasta fasteignin er í McLean-hverfinu í Virginíu en árið 2018 keypti konungsríkið Sádi Arabía 2.140 fermetra fasteign af stofnanda AOL, Steve Case.
Kaupverðið var 43 milljónir Bandaríkjadala en eignin er hvað þekktust fyrir að vera æskuheimili Jacqueline Kennedy Onassis.
Í fasteigninni eru níu svefnherbergi, líkamsrækt, sundlaug og tennisvöllur.
Þriðju stærstu fasteignaviðskiptin á svæðinu áttu sér stað þegar James V. Kimsey, meðstofnandi AOL, seldi fasteign sína í McLean Virginíu til eignarhaldsfélagsins 600 CBR LLC árið 2020.
The Wall Street Journal gat ekki sagt til um endanlegan eiganda félagsins en um er að ræða sex svefnherbergja 2.276 fermetra eign sem var hönnuð af Frank Lloyd Wright.
Kaupverðið var 42,7 milljónir dala en eignarhaldsfélagið hefur verið að fjárfesta í nærliggjandi jörðum og á félagið nú um fjóra hektara af landi í kringum fasteignina. WSJ verðmetur landið og eignina á 94 milljónir dala í dag.
Hægt er að lesa meira um dýrustu eignirnar í grennd við D.C. hér en þar að finna meðal annars heimili Jeff Bezos stofnanda Amazon.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum áttu fimmtu stærstu fasteignaviðskiptin á svæðinu sér stað á dögunum.