Íslandsvinurinn Cedric Duncan, tónlistarmaður í Nashville, segir það mjög spennandi að flugfélög á borð Icelandair og Aer Lingus séu nú byrjuð að fljúga beint til heimaborgar hans en hann segir Nashville tilvalinn áfangastað fyrir ferðamenn.

Icelandair flaug sitt fyrsta áætlunarflug til Nashville 11. apríl sl. og fylgdi svo írska flugfélagið Aer Lingus þar á eftir einum degi seinna. Nashville er oft kölluð Borg tónlistarinnar og hefur lengi verið vinsæll, en þó vel falinn, áfangastaður.

Cedric segir í samtali við Viðskiptablaðið að margir af þeim sem búa í Nashville séu nýfluttir þangað og séu því sjálfir mjög opnir fyrir því að hjálpa bæði ferðamönnum og öðrum aðfluttum einstaklingum með ráðgjöf og fleira.

„Ég ferðaðist til Íslands árið 2018 og komst að því að Íslendingar eru bæði vingjarnlegir og einlægir og eru í raun ekkert ósvipaðir íbúum Nashville.“

Hann segir að það sem myndi líklega koma flestum Íslendingum á óvart er það hversu margir veitingastaðir hafi opnað í Nashville á skömmum tíma. „Þar er hægt að fá sér sterkan kjúkling, indverskan, grillmat, taílenskan og margt fleira. Borgin er í raun ein stór dagsferð þegar kemur að mat.“

Í gegnum tíðina hafa Bandaríkin gjarnan verið vinsæll áfangastaður fyrir Íslendinga þegar kemur að því að versla ódýrari varning en með hækkandi verðbólgu og viðskiptastríði gæti það verið liðin tíð.

Cedric segir hins vegar að Nashville gæti þó hlaupið í skarðið sem ódýrari áfangastaður fyrir Íslendinga sem vilji versla jólagjafir þar sem hún sé talsvert ódýrari en aðrar bandarískar stórborgir.

„Ég myndi benda fólki á að heimsækja Opry Mills Mall eða fara á kolaportsverslunarsvæðið í austurhluta Nashville. Fyrir þá sem nenna að keyra í 20 mínútur til Brentwood, úthverfi Nashville, er einnig verslunarmiðstöð sem heitir Cool Springs Mall, sem býður upp á nánast hvað sem er.“

Nashville er þá einnig vinsæl fyrir tónlistaráhugamenn og þá sem vilja kynnast sögu bandarískrar tónlistar. Þar er meðal annars hægt að sjá hvar Elvis Presley, Dolly Parton, Roy Orbison, Everly-bræður og margir fleiri tóku upp sum sinna frægustu laga.

„Ég held að það séu fáar borgir í Bandaríkjunum sem eru eins mikið nátengdar ákveðinni tegund af fatnaði“

Cedric segir borgina hins vegar bjóða upp á enn ríkari sögu sem tengist til að mynda bandarísku borgarastyrjöldinni.

„Fort Negley er til dæmis ótrúlega flott og söguríkt virki í Nashville. Virkið var notað í borgarastyrjöldinni en í dag er búið að breyta því í sögulegan garð þar sem fólk getur hlaupið um eða fengið sér göngutúr. Það eru líka veggspjöld sem lýsa orrustunum á því svæði og svo býður virkið líka upp á frábært útsýni yfir borgina.“

Aðspurður um breytt landslag bandarískra stórborga fyrir ferðamenn segir Cedric að Nashville sé í raun komin yfir í allt annan flokk bandarískra ferðamannaborga. Nashville sé þá meira í takt við Las Vegas eða New Orleans en þó með sína einstöku kúrekamenningu.

„Ég held að það séu fáar borgir í Bandaríkjunum sem eru eins mikið nátengdar ákveðinni tegund af fatnaði og Nashville er þegar kemur að kúrekafötum, stígvélum og kúrekahöttum.“

Hann segir að lokum að borgin sé tilvalin fyrir steggja- og gæsaveislur og að slíkar veislur auki aðeins það villta andrúmsloft Nashville sem sést dagsdaglega. „Þegar þú heimsækir þessa borg tónlistar þá finnur þú fyrir allri þeirri sveitaballastemningu sem Nashville býður upp á.“