Veitingastaðurinn Indo-Italian hélt upp á eins árs afmæli í dag en staðurinn opnaði við Engjateig 19 í Reykjavík þann 15. ágúst í fyrra. Á þeim tíma var um algjöra nýjung að ræða en Indo-Italian býður upp á blöndu af ítölskum og indverskum mat.
Staðurinn er í eigu Shijo Mathew og Helen Rose en þau eru bæði frá Indlandi. Shijo hefur unnið sem kokkur í 20 ár en þekkir einnig vel til ítalskrar matargerðar.
Í tilefni dagsins var boðið upp á rósmarínkryddaða lambaskanka með krydduðum kartöflum og rauðvínssósu ásamt kjúkling í grænu karríi með basmati-hrísgrjónum. Sætkartöflu- og spínatsúpa var einnig á boðstólum og gátu gestir svo fengið sér afmælisköku í eftirrétt.
Eigendur segja í samtali við Viðskiptablaðið að reksturinn hafi gengið mjög vel undanfarið ár en margir hafa sýnt veitingastaðnum mikinn áhuga. Flestir viðskiptavinir hafa verið Íslendingar en staðurinn er einnig vinsæll meðal erlendra ferðamanna.
„Það er náttúrulega bara númer eitt að allir séu ánægðir með matinn. Ítalir hafa einnig verið að mæta og eru líka mjög glaðir að sjá bæði indverskan og ítalskan mat undir einu þaki,“ segir Helen og bætir við að hún hafi fundið fyrir aukningu á svokölluðum fusion-mat á Íslandi undanfarin misseri.
Eigendur segjast einnig vera ánægðir með staðsetningu veitingastaðarins en hann er staðsettur beint á móti Hilton Nordica. Indo-Italian tekur því á móti fjölmörgum erlendum ferðamönnum á meðan Íslendingar eru uppi í sumarbústað að grilla.
„Við sjáum mjög marga reglulega viðskiptavini sem eru að mæta aftur og aftur og eru orðin eins og fjölskylda. Það segir okkur að við hljótum að vera að gera eitthvað rétt.“