Land Rover hefur síðustu tvo mánuði kynnt hinn nýja og glæsilega jeppa Land Rover Discovery Sport hér á Íslandi . Um þúsund blaðamenn og starfsmenn á vegum Land Rover hafa komið til landsins frá því í desember til þess eins að reynsluaka bílnum í íslenskum vetraraðstæðum. Myndband frá ferðinni má finna neðst í fréttinni.

Land Rover færði öllum blaðamönnum sem komu víðs vegar að úr heiminum til þess að reynsluaka jeppanum hér á landi, úlpu frá íslenska fataframleiðandanum 66°Norður að gjöf. Um var að ræða Þórsmörk Parka sem er með veglegustu úlpum frá 66°Norður. Blaðamenn voru að vonum hæstánægðir með jeppann sem og úlpurnar sem hafa komið sér vel í vetrarveðrinu undanfarið.

„66°Norður varð fyrir valinu þar sem fatnaður fyrirtækisins er í hæsta gæðaflokki og hentar við ólíkar og krefjandi aðstæður. Það var því okkar mat að 66°Norður passi mjög vel við Land Rover og erum við afar ánægð með að hafa valið Þórsmörk Parka úlpurnar frá fyrirtækinu enda stóðu þær undir væntingum og það var mikil ánægja með þær hjá hinum mikla fjölda blaðamanna sem komu til Íslands að reynsluaka bílnum," segir Nanda Nengerman sem sá um skipulagningu viðburðarins fyrir Land Rover.

Stykkið kostar 80 þúsund krónur

Þórsmörk Parka úlpan er ein allra vandaðasta og dýrasta úlpan sem 66°Norður framleiðir en hún kostar um 80.000 kr. samkvæmt verðlista en líklegt má telja að Land Rover hafi fengið einhvern afslátt í ljósi þessa stóra pakka.

Fjallað er um hinn nýja Land Rover Discovery Sport í reynsluakstrinum á Íslandi í blöðum, tímaritum og ljósvakamiðlum víða um heim. Nýja kynslóðin fær almennt mjög góða dóma. Í reynsluakstursgrein í Viðskiptablaðinu í síðustu viku segir að Land Rover Discovery Sport sé mjög frábrugðinn bílnum sem hann tekur við af. Nýi bíllinn er stórt stökk frá forveranum í öllum skilningi. Hann er stærri og vandaðri að innan og utan og þægilegur í akstri. Nánar verður fjallað um ferðasöguna í Eftir vinnu sem kemur út í lok febrúar.

Ítarlega umfjöllun um umfang kynningarinnar hér á landi er að finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Myndband: