Portúgal hefur verið áfangastaður íslenskra sólarunnenda um langt skeið. Höfuðborgin Lissabon var það hins vegar ekki fyrr en Play hóf þangað beint flug fyrir rúmum tveimur árum. Í október hóf Icelandair einnig beint flug þangað og er það án efa til marks um hversu vinsæl borgin er.

Jólin eru tilvalinn tími til að sækja Lissabon heim. Lissabon er þekkt fyrir fallegar jólaskreytingar, en sérstaklega njóta aðalstræti borgarinnar, eins og Avenida da Liberdade og Baixa, sín á þessum tíma með litríkum ljósum og glæsilegum jólaskreytingum. Santa Catarina hæðin býður líka upp á fallega lýsingu, þar sem útsýnið yfir borgina fær sérstakan hátíðarsvip. Enda svo sem engin furða því opinberar skránngar segja að 80% þjóðarinnar séu kaþólsk.

Wonderland í Lissabon er árlegur jólamarkaður með skautasvelli, hátíðarstemningu og fjölbreyttu úrvali af sölubásum.

Að mati innfæddra er einn merkasti markaðurinn í garði Eðvarðs sjöunda, Parque Eduardo VII. Sá nefnist Undraland og er opinn frá 1. desember til 1. janúar. Þar má finna handgerðar gjafir, sælkeravörur, ísskauta og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Önnur torg, eins og Rossio-torgið, eru einnig vinsælir staðir til að upplifa jólastemninguna. Fyrir þá sem eru að ferðast með börn þá er Zoo Lisboa með sérstaka jóladagskrá, þar sem dýragarðurinn fær einnig jólaútlit. Hitinn í borginni er alveg ágætur, 10-15 stig en rigningardagarnir geta verið margir. Það er einnig að jafnaði mjög gott úrval af íbúðum á sanngjörnu verði. Til dæmis í Bairro Alto hverfinu.

Rossio jólamarkaðurinn í Lissabon er vinsæll áfangastaður í miðborginni, þar sem fólk nýtur jólastemningar, handverks og portúgalskra kræsinga.

Hvar áttu að dvelja?

Gististaðirnir eru óteljandi í borginni. Ef menn vilja gista á Hótel Sögu þeirra Lissabon-búa, það er að segja áður en Framsóknarflokkur Lilju Alfreðsdóttur eyðilagði það ágæta hótel, þá velja menn Tivoli hótelið. Það er ansi grand. Það stendur við Frelsisbreiðstætið, Avenida Liberdade, sem er Champs-Élysées þeirra Portúgala.

Tivoli Avenida Liberdade Lisboa er glæsilegt 5-stjörnu hótel staðsett við hina frægu Avenida da Liberdade í hjarta Lissabon.

Vorið er tíminn

Nú eru köldustu mánuðirnir í Lissabon framundan, líkt og hér heima, og við Frónbúar viljum flestir sjá sólina og fá svolítinn hita á ferðalaginu. Í byrjun mars, þó með nokkurri heppni, getur veðrið verið alveg hreint ágætt. Þá er rétt að fara út fyrir borgina og skoða Cascais og Sintra, þar sem margir Íslendingar hafa komið sér fyrir til að taka út séreignarsparnaðinn skattlaust, eða skattlítið.

Penha Longa golfvöllurinn er glæsilegur 27 holu völlur umkringdur stórbrotinni náttúru Sintra-fjallanna í Portúgal og býður upp á einstaka golfupplifun.