Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson er langlaunahæsti íslenski landsliðsmaðurinn eftir að hann samdi við Al-Orobah í Sádi-Arabíu í sumar. Jóhann Berg fær um tæpan milljarð króna í árslaun hjá félaginu samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en peningarnir eru skattfrjálsir í Sádi-Arabíu.
Þetta kemur fram í tímaritinu Áramót, sem kemur út 30. desember. Netútgáfa blaðsins verður opin fyrir áskrifendum kl 19:30 annað kvöld.
Jóhann Berg yfirgaf enska félagið Burnley sem féll úr úrvalsdeildinni í vor. Jóhann Berg, sem er 33 ára, var í átta ár hjá Burnley en hann kom til félagsins frá Charlton sumarið 2016. Honum var boðinn nýr samningur hjá Burnley í vor en eftir að hann fékk þetta magnaða tilboð frá Sádi-Arabíu gat hann ekki hafnað því.
Jóhann Berg er uppalinn hjá Breiðabliki og hefur sem atvinnumaður leikið með AZ Alkmaar, Charlton og Burnley. Hann á að baki 93 landsleiki og reynir nú fyrir sér í Sádi-Arabíu. Jóhann Berg skrifaði undir eins árs samning við Al-Orobah sem er nýliði í úrvalsdeildinni í Sádi. Portúgalinn Alvaro Pacheco er þjálfari liðsins og á meðal leikmanna er Jean Michael Seri sem var fyrrum leikmaður Fulham og Hull.
Orri Steinn Óskarsson hækkar mest í launum á árinu fyrir utan Jóhann Berg en hann gekk til liðs við spænska liðið Real Sociedad í sumar. Hann var keyptur þangað frá FC Kaupmannahöfn þar sem hann lék í fjögur ár.
Orri Steinn er jafnframt dýrasti leikmaður danska stórliðsins. Real Sociedad borgaði Kaupmannahöfn 20 milljónir evra eða þrjá milljarða íslenskra króna fyrir leikmanninn. Orri Steinn er með 440 milljónir í árslaun á Spáni og er næstlaunahæsti íslenski atvinnumaðurinn.
Hákon með mjög góðan samning í Frakklandi
Hákon Arnar Haraldsson yfirgaf einnig FC Kaupmannahöfn og gekk til liðs við Lille sem leikur í úrvalsdeildinni í Frakklandi. Þessi 21 árs Skagamaður gerir það gott og skoraði á dögunum í sigurleik liðsins í meistaradeildinni gegn Sturm Graz.
Lille er í toppbaráttunni í frönsku úrvalsdeildinni og þar hefur Hákon leikið vel. Hákon gerði mjög góðan samning en hann er með um 350 milljónir í árslaun hjá Lille.
Í tímaritinu Áramótum er listi yfir 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan má sjá fimm launahæstu:
- Jóhann Berg Guðmundsson Al-Orobah um 950 m. kr.
- Orri Steinn Óskarsson Real Sociedad um 440 m. kr.
- Hákon Arnar Haraldsson Lille um 350 m. kr.
- Albert Guðmundsson Genoa (Fiorentina lán) 350 m. kr.
- Hákon Rafn Valdimarsson Brentford um 300 m. kr.
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út mánudaginn 30. desember. Blaðið verður birt á vefnum fyrir áskrifendur klukkan 19.30, sunnudaginn 29. desember.