Þegar fólk er undir miklu álagi þá er hætt við því að fólk vandi sig síður í samskiptum,“ segir RakelDavíðsdóttir, Sálfræðingur hjá Lífi og sál. Hún segir að á vinnustöðum þar sem er mikið álag sé hættara við því að upp komi erfiðleikar, sérstaklegar ef stjórnunin er ekki nægilega góð og ef starfsandinn á vinnustaðnum er veikur fyrir. „Það geta allir gengið í gegnum vissa álagstörn í vinnu, sérstaklega ef fólk sér fyrir endann á álaginu. Það skiptir miklu máli að fólk upplifi að það hafi stuðning frá yfirmönnum og samstarfsfélögum. Að starfsfólk vinni saman að markmiðum og hjálpist að,“ segir Rakel.
Allir þurfa hvíld
Eins og Rakel kemur inn á þá er mikilvægt að fólk upplifi að það hafi stuðning á sínum vinnustað en einnig ákveðinn sveigjanleika. Þá er mikilvægt að fólk upplifi að það hafi eitthvað um málin að segja og hafi því ákveðið vald yfir því sem það gerir. Á sumum vinnustöðum koma miklar álagstarnir í kringum jólin á meðan aðrir upplifa slíkt á öðrum tímum ársins. Á slíkum tímum er mikilvægt að huga að því að allir starfsmenn fái hvíld inn á milli. „Það kemur fyrir að fólk er farið að hlaupa svo hratt að það fer ekki á klósettið. Fólk þarf að passa upp á hvíldina,“ segir Rakel. Hún ráðleggur einnig að þegar vandamál komi upp þá þurfi að taka á þeim strax og ræða málin en ekki leyfa þeim að hlaðast upp innra með fólki. Aðspurð segir Rakel streitu og álag ekki bundið við ákveðna geira heldur séu vinnustaðir frekar með sína eigin álagstíma. Einnig upplifa starfsmenn oft streitu þegar verið er að gera breytingar á starfseminni eða einhverjar nýjungar eru innleiddar. „Það geta verið smærri breytingar, t.d. breytingar á tölvukerfi, nýtt verklag eða breytingar á vinnuaðstöðu sem geta valdið auknu álagi á starfsfólk.“
Álag um jólin
Aðspurð segir Rakel jólin vissulega ákveðinn álagspunkt í lífi margra og hjá Lífi og sál sjái þau fólk oft koma til þeirra þegar kvíði og streita er farin að gera vart við sig í jólaundirbúningnum. „Það eru rannsóknir sem sýna að fyrir marga er þessi tími mest streituvaldandi tími ársins,“ segir Rakel sem telur mikilvægt að fólk stilli sínum eigin væntingum og kröfum til jólanna í hóf.
Gagnlegt sé að hafa væntingar raunhæfar og í takt við það sem fólk getur og raunverulega vill komast yfir að gera. Gott er spyrja sjálfan sig út á hvað þessi tími gengur og hvað fólk vill fá út úr þessum tíma. „Þetta er oft erfiður tími fyrir fólk,“ segir Rakel. Oft sé um að ræða mestu gleðistund ársins fyrir einhverja en fyrir suma skipti mestu máli að komast í gegnum þennan erfiða tíma. Hún segir jólin geta verið sérstaklega erfið fyrir þá sem hafa lent í áföllum á síðustu misserum eða undangengnum árum eða sem eiga slæmar minningar frá þessum tíma.
Rakel bendir á að svokallaðir ytri streituvaldar geta valdið fólki vandræðum eins og ýmiskonar breytingar í lífinu og fjárhagur sem er einn stærsti ytri streituvaldurinn hjá fólki í desember. „Svo eru það innri streituvaldar sem hafa áhrif á fólk eins og hvaða kröfur við setjum okkur og hvernig viðhorf okkar eru,“ segir Rakel.
„Þegar fólk upplifir streitu og kvíða er hætt við að fólk fari að einangra sig, fresta hlutum og verkefnum ásamt því að svefn raskast mjög auðveldlega. Þegar svefn raskast verður erfiðara að takast á við hlutina og fólki líður verr. Þetta verður oft mikill vítahringur sem fólk þarf oft aðstoð við að rjúfa.“