Þriðja kynslóð Range Rover Sport, sem kom á markað fyrir um tveimur árum, hefur notið vinsælda hér á landi. Bíllinn býður upp á sportlegan lúxus með magnaðri akstursupplifun, góðri getu í torfærum og nýjustu tækni. Við reynsluókum gripnum á dögunum í tvinnútgáfu, með þriggja lítra og sex sílendra bensínvél og rafmótor.
Range Rover Sport hefur breyst mikið frá því að hann kom á markað fyrst árið 2005 en á þeim árum voru sportlegir jeppar að koma inn á markaðinn. Það var talsverð bylting þegar önnur kynslóðin kom árið 2013. Þá léttist hann um allt að 420 kíló og varð mun sportlegri.
Framúrskarandi aksturseiginleikar
Það verður að segjast eins og er að aksturseiginleikarnir í Range Rover Sport eru framúrskarandi. Bíllinn er stór og þungur með rafhlöðunni en það kemur ekki að sök.
Aflið er magnað og Dynamic Launch fínstillir gírskiptingar og skilar hámarkstogi og aukinni hröðun bílsins. Þennan búnað er einungis að finna í Range Rover Sport.
Stýringin er mjög góð og jafnvel þótt ekið sé nokkuð greitt þá á þessum stóra sportjeppa. Loftfjöðrunin hjálpar til við að gera aksturinn silkimjúkan. Mér líður hreinlega undir stýri eins og ég sé að fljúga þotu. Bíllinn virðist svífa um loftin blá þótt hann sé enn sem betur fer bundinn við jörðina.
Ef vilji er fyrir hendi að aka utanvegar og jafnvel fara í torfærur þá er hægt að velja úr sjö torfærustillingum sem þýðir að hann getur aðlagað viðbragð vélar, gírkassa og undirvagskerfanna með Terrain Response 2 kerfinu.
Sportjeppinn er búinn torfærustýringu og vaðdýpið er 900 mm þannig að hægt er að aka um fjöll og firnindi og ár á þessari lúxuskerru. Hann getur nefnilega meira en margur heldur. Dráttargetan er þrjú tonn þannig að hann fer létt með að draga hjólhýsi.
Umfjöllunina um Range Rover Sport er að finna í blaðinu Eftir vinnu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.