Ársfundur Samtaka atvinnulífsins var haldinn sl. fimmtudag í Silfurbergi, Hörpu. Yfirskrift fundarins var Samtaka um grænar lausnir.
Margt var um manninn á ársfundinum en að dagskrá lokinni var boðið upp á veitingar í föstu og fljótandi formi í Eyrinni.
Ljósmynd: Eyþór Árnason
Deila
Samtök atvinnulífsins hyggjast á komandi starfsári beina kastljósinu að grænni orku og grænum lausnum, enda sé græn orka lykill að orkuskiptum og kolefnishlutleysi Íslands.
Á fundinum fengu gestir stöðu og horfur beint í æð í erindum Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, Eyjólfs Árna Rafnssonar, formanns SA, og Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra SA.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, rýndu í niðurstöður nýrrar könnunar Gallup um afstöðu almennings og fyrirtækja til orku- og loftslagsmála, undir fundarstjórn Þórðar Gunnarssonar, hagfræðings.
Þá var púlsinn tekinn á forystusveit aðildarsamtaka SA ásamt hugvekjum nýsköpunarfyrirtækja.
Hagfræðingurinn Þórður Gunnarsson spurði Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Árna Stefánsson, forstjóra Húsasmiðjunnar, og Kristínu Lindu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, spjörunum úr í pallborðsumræðum.
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, sat til borðs ásamt sveit ráðherra úr ríkisstjórn. Ásamt Bjarna Benediktssyni voru mætt Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Guðlaugur Þór Þórðarson.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, fór um víðan völl í erindi sínum á ársfundinum og kynnti m.a. fimm lykiláherslur í málefnastarfi samtakanna fyrir tímabilið 2024-2028.
Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima, var síður en svo að mæta á sinn fyrsta ársfund á vegum SA enda var hann framkvæmdastjóri samtakanna í rúmlega sex ár áður en hann færði sig yfir til Heima.
Bjarni Benediktsson ávarpaði fundinn. Hann rifjaði upp að síðast þegar hann hélt ræðu á ársfundi SA, árið 2017, hafi skilvirkni í opinberum rekstri verið efst í huga. Nú hafi fjölmargt áunnist en margt sem þarf ávallt að vakta. Skilvirkni sé þar á meðal.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, var í hátíðarskapi og fagnaði ársfundinum með skrautlegu hálsbindi. Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festar, nýtti tækifærið á milli erinda til að kíkja örsnöggt í símann.