Ársfundur Samtaka atvinnulífsins var haldinn sl. fimmtudag í Silfurbergi, Hörpu. Yfirskrift fundarins var Samtaka um grænar lausnir.
Margt var um manninn á ársfundinum en að dagskrá lokinni var boðið upp á veitingar í föstu og fljótandi formi í Eyrinni.
Ljósmynd: Eyþór Árnason
Deila
Samtök atvinnulífsins hyggjast á komandi starfsári beina kastljósinu að grænni orku og grænum lausnum, enda sé græn orka lykill að orkuskiptum og kolefnishlutleysi Íslands.
Á fundinum fengu gestir stöðu og horfur beint í æð í erindum Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, Eyjólfs Árna Rafnssonar, formanns SA, og Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra SA.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, rýndu í niðurstöður nýrrar könnunar Gallup um afstöðu almennings og fyrirtækja til orku- og loftslagsmála, undir fundarstjórn Þórðar Gunnarssonar, hagfræðings.
Þá var púlsinn tekinn á forystusveit aðildarsamtaka SA ásamt hugvekjum nýsköpunarfyrirtækja.