Hin árlega samkoma þjóðarleiðtoga, stjórnmálamanna og fólks innan viðskiptalífsins í Davos hófst í dag og verða margir af mikilvægustu einstaklingum í heiminum þar í fjóra daga að ræða brýnustu áskoranir og tækifæri heimsins.

Sumir þjóðarleiðtogar, eins og forsetar Kína og Indlands, hafa neitað að mæta en á ráðstefnunni munu gestir fá að sjá endurkjörinn Bandaríkjaforseta, Donald Trump.

Nokkrir forstjórar hafa þegar sagt að mæting hans á ráðstefnuna gæti reynst bandarískum fyrirtækjum vel. Aðrir munu hins vegar eflaust lýsa yfir áhyggjum af yfirvofandi tollum og verðbólgu.

Framkvæmdastjóri austurríska orkufyrirtækisins OMV sagði til að mynda að fyrirtækið hans og gasiðnaðurinn væri að upplifa nýjan kafla á þessu ári en ummæli hans koma skömmu eftir að OMV vann dómsmál gegn rússneska orkurisanum Gazprom.
