Árleg ráðstefna FKA Framtíð fór nýverið fram í höfuðstöðvum Arion banka, að þessu sinni undir yfirskriftinni Fjárfestu í Framtíðinni.

Þetta var þriðja ráðstefna deildarinnar og var sjónum m.a. beint að lífeyrissjóðum, fyrstu skrefum í fjárfestingum og áhrifum hugræns atferlis á ákvarðanatöku.

Formaður FKA Framtíð opnaði ráðstefnuna en dagskráin var skipuð konum með víðtæka reynslu úr heimi fjármála og fjárfestinga.

Snædís Ögn Flosadóttir, forstöðumaður á mörkuðum hjá Arion banka, fjallaði um langtímaátakið Konur fjárfesta og af hverju Arion banki fór af stað með það. Markmið Arion er að hvetja konur til að taka virkari þátt í fjármálum sínum og byggja upp sterkan fjárhagslegan grunn.

Sólveig Ragnheiður Gunnarsdóttir, fjármálaráðgjafi og eigandi Solveig Consulting ehf. og meðeigandi Eventum Travel ehf., hélt erindi um hvernig hugræn ferli og hegðun hafa áhrif á ákvarðanatöku okkar í fjármálum.

Sigurlína Ingvarsdóttir, meðeigandi Behold Ventures, ráðgjafi og stjórnarmaður, hélt erindi undir yfirskriftinni: „Lífið er leikur – lærðu að spila“. Hún fjallaði um eigin vegferð, allt frá litlu fjármálalæsi yfir í að starfa í fjárfestingageiranum.

Magdalena A. Torfadóttir, viðskiptablaðamaður hjá Morgunblaðinu og stjórnandi Fjármálakastsins, deildi ráðleggingum um hvernig má yfirstíga óöryggi í fjárfestingum og deildi sýn sinni á fjármálalífinu út frá menntun sinni og reynslu á markaði og í fjölmiðlum.

Þá var hún jafnframt stjórnandi pallborðsumræðna þar sem Guðrún Inga Ingólfsdóttir, forstöðumaður eignastýringar hjá Lífsverki, bættist í hópinn og miðlaði dýrmætri reynslu. Með yfirskriftina „Byrjum snemma og hættum aldrei – að fjárfesta“ bætti hún við sjónarhornum í umræðuna um fjármál kvenna og framtíðar öryggi.