Helgina 7.-8. mars komu saman teymi frumkvöðla, sérfræðinga og hugvitsfólks í Grósku Hugmyndahúsi til að leysa áskoranir heilbrigðiskerfisins á Hugmyndahraðhlaupi KLAK – Icelandic Startups.

Markmiðið var að móta nýjar lausnir sem geta bætt heilbrigðisþjónustu á Íslandi og gert hana aðgengilegri.

„Á tveimur dögum tókst þátttakendum að greina og skilja vandamál, fá ráðgjöf frá leiðandi sérfræðingum og móta hugmyndir sem geta skipt sköpum fyrir framtíð heilbrigðisþjónustu. Við lok fyrsta fasa hraðhlaupsins höfðu myndast sex sterk teymi sem unnu að spennandi lausnum sem hver um sig leysti raunveruleg vandamál í heilbrigðiskerfinu, undir dyggri leiðsögn aðila frá Stafrænu Íslandi, Heilbrigðisráðuneytinu, Landspítala og KLAK - Icelandic Startups,“ segir í tilkynningu.


Jón Ingi Bergsteinsson, stjórnarformaður IceBan og reyndur frumkvöðull, kom meðal annars í heimsókn til þess að ræða við þátttakendur Hugmyndahraðhlaupsins og gefa þeim innblástur.

Hann fór einnig yfir frumkvöðlavegferð sína en hann stofnaði heilsutæknifyrirtækið SMART-TRIAL árið 2013 og seldi það svo til Greenlight Guru þremur árum síðar.

Teymin komu úr ólíkum áttum og mótuðu fjölbreyttar lausnir sem meðal annars nýta gervigreind, stafræna þjónustu og persónuleg heilsugögn til að gera heilbrigðiskerfið skilvirkara og notendavænna.

„Það var frábært að sjá hversu margir sérfræðingar úr heilbrigðiskerfinu tóku þátt og deildu sinni dýrmætu þekkingu. Þetta var einstakt tækifæri fyrir fagfólk úr ólíkum deildum og stofnunum til að vinna saman, læra nýjar aðferðir og hrinda nýsköpun í framkvæmd. Við hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi þróun lausnanna – og sjá hvernig þessi reynsla nýtist í frekari umbreytingum á heilbrigðisþjónustu,“ sagði Freyr Friðfinnsson verkefnastjóri hugmyndahraðhlaupsins.