Þann 12. febrúar sl. hélt Arion banki viðburð í Hörpu undir yfirskriftinni „Jöfnum leikinn“ til að fagna því að heilt ár væri liðið frá því að bankinn ýtti úr vör átaksverkefni sínu Konur fjárfestum.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141340.width-1160.jpg)
„Konur fjárfestum“ er langtímaátaksverkefni sem Arion banki hóf snemma árs 2023 með það að markmiði að efla þátttöku kvenna á fjármálamarkaði og stuðla að fjárhagslegu sjálfstæði þeirra.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141341.width-1160.jpg)
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi, hélt opnunarerindi þar sem hún lýsti vitundarvakningu sinni í jafnréttismálum og baráttu fyrir auknum umsvifum kvenna á fjármálamarkaði.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141342.width-1160.jpg)
Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri Arion banka, benti á að 4.500 konur hafi þegar sótt fimmtíu Konur fjárfestum viðburði vítt og breitt um landið. Hún stýrði einnig spjalli við heiðursgest kvöldsins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem ræddi um stjórnmálaferil sinn og jafnréttisbaráttu.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141343.width-1160.jpg)
„Hver kynslóð þarf að finna sína leið til að gera hlutina. Þess vegna er erfitt að gefa yngra fólki nákvæmar leiðbeiningar. Eitt er þó víst: Þetta má þetta ekki vera eintómur barningur, þetta þarf líka að vera gaman og skemmtilegt. Og konur þurfa að standa þétt saman. Sterk vinátta sterkra kvenna flytur fjöll. Baráttan reynir auðvitað stundum á þolrifin og þá er mikilvægt að hafa gott fólk á bak við sig,“ sagði Ingibjörg Sólrún, sem hlaut einnig viðurkenningu fyrir ævistarf í þágu jafnréttis.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141344.width-1160.jpg)
Fortuna Invest hlaut viðurkenningu fyrir hvatningu til fjárfestinga en á bak við Fortuna Invest eru þær Aníta Rut Hilmarsdóttir, Kristín Hildur Ragnarsdóttir og Rósa Kristinsdóttir. Saman halda þær úti fréttabréfi um fjárfestingar, Instagram-reikningi og hafa gefið út metsölubókina Fjárfestingar.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141345.width-1160.jpg)
Viðurkenningu fyrir fjárfestingu ársins fékk svo hin íslenska kona – til dæmis allar þær áhugasömu og öflugu konur sem flykkst hafa á Konur fjárfestum viðburðina.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141346.width-1160.jpg)
Það voru þær Snædís Ögn Flosadóttir og Helga Sigurrós Valgeirsdóttir sem veittu viðurkenningarnar fyrir hönd Arion banka. „Að búa yfir góðu fjármálalæsi og vera fjárhagslega sjálfstæð er ekki áhugamál. Það er grunnfærni í lífinu, eins og að skipta um dekk og setja í þvottavél,“ sagði Snædís Ögn.