Markaðsráðstefnan Krossmiðlun, var haldin í sjötta sinn á Grand Hótel í gær. Áherslan að þessu sinni var á mörkun (branding) og strategíu, þar sem um tvö hundruð manns hlýddu á fimm erlenda fyrirlesara ausa úr reynslubrunnum sínum. Í erindum sínum deildu þau með gestum ráðstefnunnar ráðum sem snúa að stefnumótun, mörkun og markaðssetningu stórra vörumerkja og tóku nokkur dæmi.
Ástralski sérfræðingurinn í stefnumótun, Mark Pollard, bauð upp á vinnustofu að loknum fyrirlestrunum. Pollard hefur unnið með aðilum á borð við The Wall Street Journal, Twitter, EA Games, The Economist. Hann heldur einnig úti strategíuhlaðvarpinu Sweathead sem er með um 1,4 milljónir hlustenda.
„Það er alltaf gaman að lyfta sér upp úr hversdeginum um stund og læra af reynslu annarra,“ segir Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipars\TBWA, sem hélt ráðstefnuna.