Pósthlaupið fór fram í þriðja sinn í Dölunum í dag en fáir létu þó veðurspána stoppa sig því í ár var metþátttaka.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Eins og fyrri ár var vel tekið á móti hlaupurum, fjölskyldum þeirra og félögum í Búðardal. Börn og fylgifiskar komu rjóð og kát í mark og fengu Póstbuffi að hlaupi loknu og þáðu ís frá Erpsstöðum.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sex þátttakendur hlupu hina gömlu landpóstaleið frá Bálkastöðum í Hrútafirði alla leið yfir í Búðardal, eða 50 km leið. Felix Starker bar sigur úr býtum, hljóp kílómetrana 50 á 03:51:05. Hlaupararnir Guðmundur Kári Þorgrímsson og Jósep Magnússon röðuðu sér í annað og þriðja sætið.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sextíu og tveir tóku þátt í 26 km hlaupi frá Kirkjufellsrétt. Sigurvegarar voru Jörundur Frímann Jónasson og Margrét Sól Torfadóttir sem hlupu á tímanum 01:41:18 og 02:19:04. Hallgrímur Þorsteinsson og Daníel Snær Eyþórsson vermdu annað og þriðja sætið í karlaflokki og Borghildur Valgeirsdóttir og Daldís Ýr Guðmundsdóttir í flokki kvenna.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hlaupaleiðin frá flugvellinum að Kambsnesi í Búðardal er 7 km löng. Þær Embla Kristín Guðmundsdóttir, Þórhildur Ólöf Helgadóttir og Hildur Sif Jónsdóttir komust á pall í kvennaflokki. Besta tímanum náði Embla Kristín sem hljóp á 40 mínútum og 46 sekúndum. Í karlaflokki voru þeir Daniel Brooks, Tom Franco og Ragnar Ægir Pétursson fyrstir. Gullið fékk Daniel sem hljóp á 32 mínútum og 13 sekúndum.

© Aðsend mynd (AÐSEND)