DriftEA, nýtt nýsköpunarfélag á Akureyri, hefur hafið starfsemi sína. Þetta er í fyrsta sinn á Íslandi sem frumkvöðlum býðst langtímastuðningur í formi aðstöðu, fjármagns og sérsniðinnar ráðgjafar á einum stað.

Félagið hefur þegar valið 14 hugmyndir inn í svokallað Slipptöku og mun í framhaldinu velja verkefni áfram í sérsniðið prógramm sem kallast Hlunnur.

Fyrirtækið hefur þá einnig gert samstarfssamning við Sting, eitt árangursríkasta stuðningsnet Svíþjóðar, sem hefur náð 67% árangri með verkefni sín á 22 ára ferli.

Sex fyrirtæki á svæðinu ásamt Háskólanum á Akureyri munu veita frumkvöðlum og nýsköpunarhugmyndum stuðning, auk þess sem sérstakir þjálfarar munu aðstoða frumkvöðla við að ná settum markmiðum.

„DriftEA er ekki bara bygging - heldur vegferð inn í framtíðina og vettvangur þar sem nýsköpun og framþróun munu dafna á Eyjafjarðarsvæðinu,“ segir Sesselja Barðdal, framkvæmdarstjóri.