Orka kírópraktík opnaði í Vegmúla 2 í byrjun síðasta mánaðar en kírópraktorstofan var stofnuð af Alexöndru Ósk Ólafsdóttur, sem sérhæfir sig í meðgöngu og meðhöndlun barna.

© Arnar Freyr (Eldey Films)

Alexandra er gift Kristóferi Núma Hlynssyni, sem tók nýlega við sem fjárfestatengill Icelandair, og saman eiga þau tvær stelpur.

© Arnar Freyr (Eldey Films)

Hún útskrifaðist með mastersgráðu í kírópraktík frá AECC College og Chiropractic í Bournemouth árið 2020. Alexandra hefur sótt mikla þekkingu erlendis og er til að mynda með Webster-gráðu, sem snýr að meðhöndlun kvenna á meðgöngu.

© Arnar Freyr (Eldey Films)

Ásamt konum og börnum hefur Alexandra einnig sinnt íþróttafólki til að hámarka getu sína í íþróttum. Hún var sjálf í fimleikum og segist hafa mikla þekkingu á líkamsbeitingu sem þess krefst.

© Arnar Freyr (Eldey Films)

„Eftir fjögur ár í starfi á Líf kírópraktík, þá tók ég ákvörðun um að opna mína stofu í Reykjavík. Eftir að ég fann húsnæði fór allt á fullt, framkvæmdir, pöntun á alls kyns búnaði og með mikilli hjálp frá foreldrum og manninum mínum, náði ég að opna stofuna 2. september sl.“

© Arnar Freyr (Eldey Films)

Alexandra segir að nafnið Orka hafi heillað sig á margan hátt. „Þetta er kröftugt kvenkynsorð, sem er lýsandi fyrir mína starfsemi, þar sem konur sækja sérstaklega mikið í mína þjónustu. Svo skiptir bara svo miklu máli að orkan sem við látum frá okkur sé jákvæð til að hafa sem mest áhrif á aðra í kringum okkur.“