Ellefta ráðstefna Ungra athafnakvenna fór fram þann 22. mars sl. á Reykjavík Edition undir heitinu Innri áttavitinn - Leiðin liggur til allra átta. Ráðstefnan endurspeglaði það að lífið er sjaldnast bein og greið leið og felur í sér ýmsa króka og kima.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra flutti opnunarávarp ráðstefnunnar og hvatti viðstadda til að hlusta á innsæið, vera hugrakkari til að taka skrefið og fara á móti straumnum.

„Við þurfum að spyrja okkur, hvað segir innsæið mitt, hvernig líður mér núna og hvernig mun mér líða eftir tíma eftir þá ákvörðun sem ég tók? Það er erfitt að vera hugrökk en það er auðveldara eftir á og þegar maður rekur sig á er betra að hafa fylgt innsæinu en ekki,“ sagði Þorgerður.

Aðrir fyrirlesarar ráðstefnunnar voru Margrét Pála Ólafsdóttir, Selma Svavarsdóttir, Claudia Ashanie Wilson, Sigríður Birna Matthíasdóttir, Michelle Spinei, Ingunn Eiríks, Snæfríður Jónsdóttir, Fortuna Invest, Snjólaug Lúðvíksdóttir, Nína Dögg Filippusardóttir, Rakel Garðarsdóttir og Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir.

„Markmiðið með ráðstefnunni var að gestir myndu ganga frá deginum með farteskið fullt af eldmóði, visku og tólum til að móta sinn eigin vöxt og stefnu í lífinu. Fyrirlesarar sögðu frá sínum innri áttavita og hvernig þær sköpuðu sína eigin leið með ólíkri þekkingu, reynslu og áhugamálum. Þær sögðu frá sínum vegferðum, ferðalögum sem hafa verið full af áskorunum og tækifærum, og veittu gestum fjölmörg heilráð til að móta sína eigin leið áfram,“ segir í tilkynningu.

Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, minnti gesti á að engin tvö væru eins. „Í öll þessi ár hef ég aldrei séð tvö eins börn. Við erum bara eins og við erum og það þýðir ekkert að lifa lífinu öðruvísi,“ sagði Margrét Pála.

Rætt var um mikilvægi kvenna í heimi nýsköpunar og þegar kemur að fjárfestingum og deildu fyrirlesarar ráðum og tólum til að fá fleiri konur að borðinu, ásamt mikilvægi þess að láta ekki mótlætið bera ofurliði.

Rakel Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturports, og Nína Dögg Filippusardóttir, leikkona, ræddu þar á meðal um Vigdísarþættina. „Hugmyndin að seríunni var sú að sýna fram á það, ef Vigdís gat þetta, þá getum við þetta öll, þrátt fyrir allt mótlætið en samt hélt hún alltaf áfram,” sagði Rakel.