Einn stærsti markaðsviðburður landsins, ráðstefnan Skilaboð, fór fram í síðustu viku en hún er haldin á vegum Billboard og Símans. Yfir 300 manns mættu í Hörpu og fræddust um nýjustu strauma og heyrðu reynslusögur.

Fyrirlesarar voru Kári Jónsson, forstöðumaður auglýsingamiðlunar hjá Símanum, sem ræddi mikilvægi fagmennsku á örmarkaði eins og á Íslandi og kynnti nýjungar í mælingum og þróun auglýsinga.

Edda Hermannsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Íslandsbanka, sagði frá hvernig 750 manns vinna saman að því að skapa sterkt vörumerki og hlutverk markaðsstjóra við að fá allt starfsfólk með í lið til að tryggja að allir séu að stefna í sömu átt.

Að lokum steig á svið hinn margverðlaunaði breski greinandi Ian Whittaker, sem gaf innsýn í framtíð og tækifæri samskipta, umhverfismiðla og auglýsinga í sjónvarpi í óstöðugu efnahagsumhverfi.

„Skilaboð er frábært tækifæri til að tengjast fólki úr heimi markaðsmála og ræða hvernig við getum nýtt saman nýjustu lausnir til að ná árangri í síbreytilegu umhverfi. Fyrir okkur hjá Símanum er mikilvægt að styðja vel við viðskiptavini okkar með framsæknu hugarfari og tækni sem hjálpar þeim að vaxa og dafna,“ segir Vésteinn Gauti Hauksson, framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs Símans.