Fjöldi gesta mætti í teiti til Sigurðar Sævara Magnúsarsonar myndlistarmanns síðastliðinn laugardag. Tilefnið var opnun á nýju sýningarrými og vinnustofu listamannsins á Hverfisgötu 60.
Sigurður Sævar hefur vakið athygli síðustu ár fyrir viðamiklar sýningar og fjölbreytt verk.
„Síðustu ár hef ég tekið á móti mörgum góðum gestum í blokkaríbúð á Háaleitisbraut þar sem ég hef sýnt verk mín og annarra. Nú er komið að ákveðnum kaflaskilum þar sem 1. mars næstkomandi mun ég setjast að í Hollandi þar sem næstu skref á sviði listarinnar verða tekin," segir Sigurður Sævar. Hann lauk námi í Konunglegu listaakademíunni í Haag síðastliðið vor.
,,Á þessum tímamótum vil ég þakka velvildina sem mér hefur verið sýnd og opna dyr mínar öllum hér á Hverfisgötunni. Til sýnis verða verk eftir mig úr ólíkum seríum og sömuleiðis mun ég vinna ný verk í rýminu og mun því sýningin breytast hægt og rólega á sýningartímanum," segir hann.
Opið verður daglega milli klukkan 16-18 fram að jólum og milli jóla og nýárs. Þá verður opið út janúar.