Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna sl. laugardag stóð WomenTechIceland ásamt fleirum fyrir árlegum STEMming viðburði á Vinnustofu Kjarvals þar sem tekið var á móti yfir 100 gestum úr STEM-geiranum.

Fundarstjóri viðburðarins var Ósk Heiða Sveinsdóttir, stjórnarkona í WomenTechIceland og framkvæmdastjóri Viðskiptavina hjá Póstinum.

STEMming er tæknisamfélagsviðburður sem sameinar meirihluta STEM-samtaka á Íslandi til að fagna konum, kvárum og fjölbreytileika í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði. Tilgangur viðburðarins var að skapa ný tengsl, efla tengslamyndun og fagna deginum og fjölbreytileika innan STEM-samfélagsins á Íslandi.

Ósk Heiða var fundarstjóri á viðburðinum og vakti athygli viðstaddra með opnunarræðu sinni þar sem hún talaði meðal annars um kraftinn sem felst í því að þora og mikilvægi öflugra fyrirmynda, sérstaklega í svokölluðum STEM-greinum, þ.e. fræðagreinum á sviði verkfræði, raunvísinda, tækni, tölvunarfræði og náttúruvísinda.

„Það er ekkert launungamál að í þessum geirum þurfum við fjölbreyttar fyrirmyndir og það er pláss fyrir allar raddir. Þær þurfa að heyrast, þær þurfa pláss við borðið,“ segir Ósk Heiða með áherslu.

Að sögn Óskar var tilgangur viðburðarins að eiga saman orkumikla stund og tengjast öðrum og því hafi hún lagt áherslu á að enginn færi heim eftir að honum lyki án þess að hafa talað við a.m.k. fjóra ókunnuga aðila.

„Miðað við orkuna í salnum og það hvað samtölin gengu vel held ég að flestir viðstaddra hafi náð því og vel það.“

Ósk segist líka hafa séð sér leik á borði að skella í einfaldan leik til að hvetja þátttakendur til að setja sér markmið. „Ég hafði tekið með póstkort og hvatti öll sem þarna voru til að skrifa sjálfum sér línu á póstkortin með nokkrum markmiðum sem þau myndu vilja ná á næstu vikum.“