Ungar athafnakonur (UAK) héldu nýlega viðburð undir heitinu Hvernig kemst ég í stjórnir fyrirtækja? en þar fengu félagskonur innsýn í stjórnarstörf og hvernig þær geti mótað sína vegferð á því sviði.

Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við nýstofnað félag Kvenna í stjórnum.

Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ísorku og jafnframt stofnandi og formaður félags Kvenna í stjórnum, kynnti félagið og fór yfir uppbyggingu og hlutverk stjórna.

Félagið var stofnað í ársbyrjun með stuðningi KPMG og mikilvægum velvilja SA og annarra traustra aðila.

Félag Kvenna í stjórnum er ætlað að efla konur í stjórnarstörfum með fræðslu, tengslamyndun og stuðningi. Um 100 stjórnarkonur hafa nú þegar gengið til liðs við félagið og starfar félagið náið með atvinnulífinu ásamt því að sækja innblástur til erlendra fyrirmynda.

„Félagið er stofnað í þeim tilgangi að skapa traust samfélag kvenna sem gegna stjórnarstörfum þar sem hægt er að spegla, miðla sín á milli og vaxa í hlutverki sínu sem leiðtogar og stjórnarmenn,“ segir Salóme.

Félagið mun í haust standa fyrir opnum fundum og námskeiði fyrir þau sem vilja eflast í stjórnarhlutverkum sínum eða fræðast um störf og ábyrgð stjórna. Í ráðgjafaráði félagsins sitja m.a. Svafa Grönfeldt, Ásthildur Otharsdóttir, Páll Harðason, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir og Birna Ósk Einarsdóttir.

„Ég sé fyrir mér að við getum jafnframt nýtt okkar sameiginlegu reynslu og tengslanet til að lyfta yngri kynslóðum upp til áhrifa í íslensku atvinnulífi með verðmætasköpun að leiðarljósi. Það er því einstaklega ánægjulegt að eiga samtal við Ungar athafnakonur um leiðtogahlutverkið, stjórnarstörf og vegferðina þangað.“

Á viðburðinum leiddi Nanna Kristín Tryggvadóttir pallborðsumræður með þeim Erlu Ósk Ásgeirsdóttir, Sigurlínu Ingvarsdóttur og Guðrún Erlu Jónsdóttur sem eiga það sameiginlegt að búa yfir víðtækri reynslu af stjórnarstörfum.

Þar deildu þær reynslu sinni og lögðu áherslu á mikilvægi tengslanetsins, fjölbreytni í stjórnum og hvernig staðfesta og sjálfstraust hjálpa konum að hasla sér völl í þessu mikilvæga hlutverki.