Árlega heiðrar Félag kvenna í atvinnulífinu konur og veitir viðurkenningar - FKA Viðurkenningu, Hvatningarviðurkenningu FKA, Þakkarviðurkenningu FKA.

Viðurkenningarhátíðin var haldin á Hótel Reykjavík Grand þar sem atvinnulífið og aðstandendur viðurkenningarhafana þriggja vörðu stundinni saman.

Þorgerður Kartín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra var með erindi, Rakel Garðarsdóttir framleiðandi hjá Vesturporti sem ber ábyrgð á yfirstandandi Vigdísar-æði einnig og Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA var kynnir.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir hlaut FKA viðurkenninguna 2025 sem veitt er fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið eða er konum í atvinnulífinu sérstök hvatning eða fyrirmynd. Hrefna er framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi og er í framkvæmdastjórn Creditinfo Group.

Arnhildur Pálmadóttir hlaut FKA hvatningarviðurkenninguna 2025 sem veitt er fyrir athyglisvert frumkvæði eða nýjungar í atvinnurekstri.

Geirlaug Þorvaldsdóttir hlaut FKA þakkarviðurkenninguna 2025 sem er veitt konu fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnanda í atvinnulífinu.

Formaður dómnefndar 2025 var stjórnarkona FKA, Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir, eigandi Synia og hugbúnaðarfyrirtækisins GET Ráðgjöf og með henni í dómnefnd í stafrófsröð:

Ásgeir Ingi Valtýsson, markaðsséní og einn stofnanda Popp Up.
Edythe Mangindin, ljósmóðir og doktorsnemi, Fæðingarheimili Reykjavíkur.
Hildur Petersen, athafnakona sem sat í fyrstu stjórn FKA og er Þakkarviðurkenningarhafi FKA 2018.
Jón Björnsson, forstjóri Veritas og stjórnarmaður Boozt og Dropp.
Kristján Kristjánsson, fjölmiðlamaður og ráðgjafi, stýrir m.a. Sprengisandi á Bylgjunni.
Rósa Kristinsdóttir, sérfræðingur hjá VEX framtakssjóði, meðstofnandi Fortuna Invest.