Edward Dóruson, verslunarstjóri Gæludýr.is, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það hafi orðið mikil vitundarvakning undanfarin ár hjá fólki hvað varðar öryggi gæludýra. Hann segir að fólk sé í auknum mæli farið að spyrja út í ljós- og endurskinsvesti þegar byrjar að hausta.

„Fólk er miklu duglegra að setja ljós eða einhvers konar endurskinsmerki á dýrin sín, sérstaklega núna þegar byrjar að dimma. Fólk er líka orðið duglegra að fara með hundana sína út á kvöldin.“

Hann segir að verslunin hafi boðið upp á endurskinsvesti í mörg ár en eftirspurnin virðist hafa stækkað ár eftir ár. „Ég er búinn að vera hér í sex ár og hef sjálfur séð mikla aukningu. Það er nánast önnur hver manneskja sem kemur hingað inn í leit að einhvers konar ljósi fyrir gæludýrin sín.“

Slysin skapa eftirspurn

Fyrstu endurskinsmerkin litu fyrst dagsins ljós í kringum fjórða áratug seinustu aldar. Maður að nafni Bob Switzer sá drauma sína um að gerast læknir fara út um gluggann eftir að hafa lent í vinnuslysi á meðan hann vann í verksmiðju sem framleiddi tómatsósu og súrar gúrkur.

Á bataferli sínum fékk hann þá hugmynd að nota flúrljómandi málningu til að hanna efni sem hægt væri að sjá úr fjarlægð. Hann prufukeyrði flíkina á brúðarkjól eiginkonu sinnar og úr varð fyrsta endurskinsvesti.

Bob stofnaði svo litafyrirtækið Day-Glo árið 1946, þar sem hann þróaði fjölda flúrljómandi málningar og litarefni sem myndu rata á teikniborð fatahönnuða um allan heim.