Niðurstaða í útboði á nýjum bíl forsætisráðherra liggur ekki fyrir. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins stendur valið milli flaggskipa þýsku lúxusbílaframleiðendanna þriggja, BMW, Mercedes-Benz og Audi.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru tilboð umboða bílaframleiðandanna hér á landi mjög hagstæð þegar þau eru borin saman við listaverð. Tilboðin frá BMW og Audi eru í kringum 13 milljónir og tilboð Mercedes-Benz er um 16 milljónir.
Verðin eru í raun nær verði millistærðarlúxusbílanna frá þeim, BMW 5, Mercedes-Benz E-Class og Audi A6, en verði flaggskipanna. Íslensku bílaumboðin fá sérstaka afslætti frá bílaframleiðendunum erlendis fyrir ráðherrabíla.
Allir bílarnir þrír hafa þjónað forsætisráðherrum Íslands á undanförnum áratugum. Davíð Oddsson ók um á Audi A8 frá 1996-2004. Halldór Ásgrímsson, Geir Haarde, Jóhanna Sigurðardóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa öll ekið um á núverandi bíl forsætisráðherra. Sá bíll er af gerðinni BMW 730 Li, árgerð 2004. Bíllinn er viðhafnarútgáfa og ætlaður fyrir þá sem eru með bílstjóra og er 15 cm lengri en hefðbundin útgáfa.
Mercedes-Benz hefur ekki verið í þjónustu forsætisráðuneytsins frá árinu 1978, eða í 36 ár. Þá var Geir Hallgrímsson forsætisráðherra og ók um á S-Class.
Flaggskipin þrjú
Sá bíll sem BMW býður fram í útboðinu kom á markað árið 2008. Nýtt útlit mun því líta dagsins ljós árið 2016. Meðal þeirra sem hafa ekið um á BMW 7 í gegnum tíðinna er lögregluforinginn Derrick. BL er með umboð fyrir BMW á Íslandi.
Nýr Mercedes-Benz S Class kom á markað í fyrra. Sá bíll er talsvert dýrari í útboðinu en 7 og A8. Það skýrist að hluta til af því hversu nýr hann er, en mikil eftirspurn er eftir bílnum. Bíllinn er mjög algengur bíll þjóðhöfðingja, en meðal þeirra sem aka um á S-Class er Vladimír Pútin, en Rússum hefur enn ekki tekist að smíða alvöru viðhafnarbíl þrátt fyrir mikinn tilkostnað.
Askja er með umboð fyrir Mercedes-Benz á Íslandi.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Sú kynslóð Audi A8 sem tekur þátt í útboðinu kom á markað árið 2009. Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, hefur aðgang að öllum flaggskipum allra þýsku lúxusbílaframleiðandanna, en hún ekur að jafnaði um á Audi A8. Hekla er með umboð fyrir Audi á Íslandi.