Ný og uppfærð útgáfa af hinum vinsæla og aldrifna tengiltvinndrifna Tucson, mest selda jepplingi framleiðandans frá upphafi, verður kynnt hér á landi um helgina.

Hinn nýi Hyundai Tucson plug-In Hybrid hefur fengið ákveðnar útlitsbreytingar; að framan er meðal annars uppfært grill og framsvunta ásamt endurhönnuðum LED dagljósum og aðalljósum. Að aftan eru einnig ný LED fjölnotaljós, sem sameina ýmsar aðgerðir, svo sem stöðuljós, bremsuljós og stefnuljós. Þá hefur úrval álfelga og bíllita verið aukið frá því sem áður var.

Í farþegarýminu blasir við alveg ný hönnun með auknum þægindum og tækninýjungum. Má þar nefna tvo 12,3 tommu sveigða miðlæga og stafræna skjái fyrir upplýsingar og stjórn afþreyingarkerfisins, þriggja punkta stýri með Shift by Wire (SBW) drifvali, sem skilar enn betri akstursupplifun, þráðlausa hleðslu sem er innbyggð í armpúðann hjá ökumanni, nýja tveggja svæða loftstýringu og fleira.

Nýr Tucson plug-In Hybrid AWD er í boði í fjórum búnaðargerðum, Classic, Comfort, Style og Premium, sem allar eru búnar 252 hestafla 1600 cc bensínvél og rafmótor ásamt rafhlöðu sem hefur rúmlega 60 km drægni samkvæmt WLTP.

Tucon kom fyrst á markað árið 2004 hér á landi og árið 2009 var hann kynntur undir heitinu ix35 en 2015 fékk hann aftur upprunalegt heiti sitt. Alls hafa rúmlega sjö milljónir bíla verið framleiddar frá upphafi, þar af liðlega 1,4 milljónir fyrir Evrópumarkað.

Bíllinn er framleiddur hjá bílaverksmiðju Hyundai í Tékklandi sem framleiddi rúm 158 þúsund eintök af Tucson árið 2023. Hann er mest seldi jepplingur Hyundai í álfunni.

Hyundai á Íslandi frumsýnir nýjan Tucson nk. laugardag milli kl. 12 og 16.