HönnunarMars 2025 fer fram dagana 2.–6. apríl, sautjánda árið í röð. Í ár fær hátíðin nýtt útlit sem endurspeglar tíðarandann og þann fjölbreytileika sem hún stendur fyrir, en verkefnið var unnið af Strik Studio.
Þau Snorri Eldjárn, Viktor Weisshappel, Jakob Hermanns og Auður Albertsdóttir eru teymið á bak við Strik Studio sem hefur vakið eftirtekt fyrir verk sín undanfarið og nálgast þau verkefni sín af mikilli dýpt og fagmennsku. Hönnunarteymið sérhæfir sig í mótun vörumerkja og sköpun ásýndar ásamt víðtækri ráðgjöf á sviði samskipta.
Hönnunarteymið vann samkeppni sem Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stóð fyrir á síðasta ári, þar sem leitað var nýrrar nálgunar á útliti, ásýnd, rödd og upplifun HönnunarMars og DesignTalks.
“HönnunarMars gefur fólki færi á að kynna sér ýmsa vinkla íslenskrar hönnunar og jafnvel frá nýju sjónarhorni. Við notuðum þessi sjónarhorn sem útgangspunkt og tól til að skapa spennandi ásýnd sem endurspeglar fjölbreytileika hátíðarinnar. Okkur þótti mikilvægt að skapa sterkt einkenni sem hefur burði til að taka við breytilegu þema hvers árs”, segir í tilkynningu frá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
Þema HönnunarMars 2025 er „Uppspretta“ – hugtak sem fangar augnablikið þegar eitthvað nýtt tekur að kvikna eða verða til. Teymið nálgaðist þetta þema með framúrstefnulegri sýn, þar sem ljósmyndir hönnuða voru settar í forgrunn og skapa lifandi og heillandi samspil lita og forma.
Viðburðir, sýningar og alþjóðleg ráðstefna
HönnunarMars 2025 lofar að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá, þar sem viðburðir, sýningar og fyrirlestrar munu leggja áherslu á nýjar lausnir og skapandi hugmyndir. Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks fer fram miðvikudaginn 2. apríl í Hörpu og er lykilviðburður hátíðarinnar.
HönnunarMars, sem hefur verið haldin árlega frá 2009, er helsti kynningarvettvangur íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Hátíðin er ein af borgarhátíðum Reykjavíkur og hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir nýsköpun og skapandi samtal.