„Fyrir Porsche-fíkil frá blautu barnsbeini þá er starfið mitt í raun stórkostlegt. Sem vörustjóri Porsche á Íslandi fæ ég að vera með í öllu ferlinu, allt frá sölu bílanna á stundum, pöntun þeirra og hönnun og allt þar á milli. Í raun allt frá A til Ö, bókstaflega, sem endar með afhendingu með viðhöfn. Því eru mikil forréttindi fyrir mann eins og mig, sem hefur haft plaköt af Porsche bílum um alla veggi alla tíð að vinna við ástríðu sína,“ segir Gísli.

„Porsche er fyrir mér sannkölluð ástríða og mun meira en bara bíll eða bílmerki. Frekar einhverskonar mystík, eitthvað dularfullt, fallegt, stórkostlegt og eitthvað óútskýrt X. Og svo er Porsche jú og verður alltaf Porsche 911. Þannig að í raun sameinar starfið ýmislegt sem ég elska, svo sem Porsche bíla, skipulagningu og síðast en ekki síst mikil samskipti við okkar dásamlegu viðskiptavini,“ segir Gísli og er mikið niðri fyrir þegar hann lýsir ástríðu sinni á Porsche.

Asnaðist til að selja stórkostlegan bíl

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

„Eflaust er það annarsvegar Porsche 911 (992) Turbo S sem ég hef verið svo lánsamur að keyra þónokkuð, bæði á kappakstursbraut sem og á vegum úti. Og á hinn bóginn þá Porsche Cayenne Turbo GT, en þar er hreint út sagt með hreinum ólíkindum að bíll af þessari stærðargráðu og þyngd keyri eins og lítill sportbíll. Það á raunar ekki að vera hægt. En þetta er svolítið eins og að gera upp á milli barnanna sinna.“

Gísli er forfallinn aðdáandi Porsche og hefur átt marga flotta bíla frá þýska sportbílaframleiðandanum.

Uppáhaldsbíllinn sem þú hefur átt?

„Þar er um marga að ræða, enda forfallinn fíkill, en að öðrum ólöstuðum held ég að ég verði að nefna Porsche 944, 1985 árgerð, sem var hreint út stórkostlegur bíll. Sem ég svo vitanlega asnaðist til að selja.“

Hvítur Porsche Carrera 944, árgerð 1985 sem Gísli átti.

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

„Af mörgum tilnefndum þá er hringferð sem við nokkrir forfallnir höfum sem sið að keyra árlega, Reykjavík-Breiðdalsvík-Akureyri-Reykjavík. Þar er oft mikið brallað, mikið keyrt og mikið brasað. Erlendis, aftur, af ótal möguleikum þá er það hugsanlega þegar ég fór með blaðamenn á kynningu Taycan bílsins fyrir nokkrum árum. Við vorum það lánsamir að vera úthlutað tíma þegar ekið var í Ölpunum, Þýskalandi og Austurríki sem dæmi í nokkra daga. Við héldum í leit að hinni upprunalegu Mozart kúlu í Austurríki á Taycan Turbo S, sem var svo sannarlega ekki partur af skipulagi okkar manna hjá Porsche. En, viti menn, við fundum upprunann, og kúluna frægu, og rúlluðum svo inn á áfangastað með örfá prósent batterís í „tankinum“, og fullt af Mozart kúlum.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins Bílar. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.