Hér er á ferðinni stór og rúmgóður rafmagnssportjeppi. Bíllinn er framhjóladrifinn, en það er eitthvað sem hægt er að setja spurningarmerki við miðað við stærð og þyngd bílsins; lengdin á SEAL U er heilir 4.785 cm, breiddin 1.890 cm, og eigin þyngd er 2.147 kg.

BYD SEAL U kom skemmtilega á óvart þegar ég reynsluók honum í byrjun september. Bíllinn er rennilegur á að líta, sportlegur og nokkuð vel lukkuð hönnun er á ytra byrði bílsins. Að innan er hann virkilega rúmgóður og eru þægindin fyrsta flokks. Veghæð er ágæt og fór hann léttilega yfir holur á malarvegum og var fjöðrunin góð, frekar stíf en ekki of. BYD SEAL U er með 19 tommu felgur sem eru gerðar til þess að lágmarka viðnám.

Sportlegur með 19” álfelgum og vindskeið á afturrúðu.

Hröðun SEAL U er 9,6 sek í 100 km/klst. sem er ágætt miðað við svo þungan bíl og er hámarkshraði gefinn upp 175 km/klst. Viðbragðið fannst mér ágætt og krafturinn passa bílnum vel. Bíllinn kemur með BLADE rafhlöðunni sem BYD framleiðir og er drægnin gefin upp 500 km í blönduðum akstri og allt að 674 km í innanbæjarakstri. Þar sem ég var meira í langkeyrslu í reynsluakstrinum þá var eyðslan eitthvað undir 500 km.

BYD SEAL U

» Orkugjafi: 87 kWh

» Drægni: 500 km

» Hámarksafl: 160 kW

» Tog: 330 Nm

» Hröðun 0-100: 9,6 sek.

» Tog: 330 Nm

» Verð: 7.490.000 kr.

» Umboð: Vatt

Fjallað var um málið í sérblaðinu Bílar, sem fylgdi Viðskiptablaðinu.