Fyrr í þessum mánuði spilaði hinn 23 ára gamli nýliði Jacob Misiorowski sinn fyrsta leik með hafnaboltaliðinu Milwaukee Brewers og sannaði að hann væri allt öðruvísi leikmaður en sést hefur í sögu Major League Baseball.

Misiorowski, sem spilar sem kastari, náði fyrstu fimm umferðum (innings) leiksins án þess að leyfa nokkrum andstæðingi að slá boltann.

Hann hélt þeirri frammistöðu áfram síðasta föstudag með sjö slíkum umferðum og varð því fyrsti kastarinn til hefja feril sinn með 11 högglausar umferðir síðan árið 1900. Ferill hans er nýhafinn en sérfræðingar segja að jafn góður kastari hafi aldrei áður sést í sögu MLB.

Travis Lalleman, hafnaboltaþjálfari Crowder-háskólans, segir í samtali við WSJ að hann hafi áttað sig strax á hæfileikum Misiorowski. Þann 29. maí 2022, þegar Crowder var að spila á móti Grand Junction í Colorado, hóf Misiorowski leikinn með því að kasta bolta sem mældist á 162 km hraða.

Áður en langt um leið fóru fréttir að berast um bæinn að hér væri á ferð fordæmalaus kastari í hafnabolta. Lallemand sagði að áhorfendur leiksins hefðu verið um 4.000 í byrjun en þegar komið var að níundu og síðustu umferð voru þeir í kringum tíu þúsund.