Lopi fur er samstarfsverkefni á vegum Rammagerðarinnar og 66°Norður á HönnunarMars sem hefst í dag. Vörulínan kallast Arctic Summer og verður sýnd í dag í verslun Rammagerðarinnar.
HönnunarMars er hátíð hönnunar og arkitektúrs þar sem fjölbreyttar sýningar, viðburðir og samtöl veita þátttakendum og gestum innblástur og innsýn í nýjar lausnir og skapandi hugmyndir.
„Eftir samtal við bæði Rammagerðina og Ístex heilluðumst við af þessu nýja efni og vorum spenntar að finna leiðir til að nota það. Í okkar vinnu er það oftar en ekki efnið sem leiðir okkur áfram og í þessu tilfelli fannst okkur fullkomið að brúa tvo heima saman,“ segir Rakel Sólrós Jóhannsdóttir, fatahönnuður hjá 66°Norður.
Þátttakendur verða um 400 talsins í ár og samkvæmt heimasíðu HönnunarMars fer þátttaka erlendra sýnenda, gesta og alþjóðlegra blaðamanna ört vaxandi.
„Hönnunarferlið var ótrúlega gefandi þar sem fyrstu prufur voru gerðar hér á Íslandi á saumastofunni okkar með okkar frábæra teymi. Markmiðið var að hanna gæða aukahluti sem skera sig úr í borgarumhverfi en renna eðlilega saman í náttúrulegu umhverfi, eins og við hvítar strendur Íslands,“ segir Karen Thuy, aðstoðarhönnuður hjá 66°Norður.