Yaris Cross er 24 sentímetrum lengri en hefðbundinn Yaris og veghæðin er meiri. Sitja ökumaður og farþegar hærra í Yaris Cross en í venjulegum Yaris, enda er leikurinn til þess gerður með hönnun bílsins. Toyota hefur verið að endurnýja flesta sína bíla upp á síðkastið og hafa margir þeirra fengið Cross útgáfu. Bíllinn ber í fyrstu meiri fjölskyldusvip með stærri meðlimi Toyota-fjölskyldunnar eins og Rav4 og óhætt að segja að hann sé flott hannaður.
Bíllinn sem reynsluekinn var er af útgáfunni Yaris Cross Active Plus og er með 1,5 lítra Hybrid vél og fjórhjóladrifi. Hægt er að fá Hybrid bílinn einnig framhjóladrifinn en í bensínvélunum er hann einungis í boði sem framhjóladrifinn.
Uppgefin eyðsla í blönduðum akstri í Hybrid útfærslunni er 4,7-5,1 lítrar á 100 km. Með bensínknúnu vélunum er uppgefin eyðsla 6,2 lítrar í blönduðu akstri. Yaris Cross Active Plus er 131 hestafl og er hámarkshraðinn gefinn upp 170 km/klst. Hámarkshraði Yaris Cross er 180 km/klst. með bensínvélinni. Þá er Hybrid bíllinn sagður 11,8 sek. í 100 í fjórhjóla útfærslunni og sekúndu fljótari með bensínvélinni.
Toyota Yaris Cross Active Plus kemur með lyklalausri opnun og ræsingu, árekstraviðvörunarkerfi, bakkmyndavél, eCall-neyðarsímtalakerfi, spólvörn, stillanlegum hraðatakmarkara, LED þokuljósum að framan og þá er bíllinn útbúinn 6 hátölurum. Auk þess er hægt að velja um fjölda aukabúnaðar eins og stóra sóllúgu og fleira.
Nánar er fjallað um Yaris Cross í Bílablaðinu, fylgiriti nýjasta tölublaðs Viðskiptablaðsins.