Stórglæsi­leg 704 fer­metra villa við Bags­vær­d­vatn, þekkt sem Villa Tusculum, hefur verið seld fyrir 75 milljónir danskra króna, um 1,4 milljarða ís­lenskra króna.

Um er að ræða ein stærstu fast­eigna­við­skipti ársins í Dan­mörku, að því er fram kemur í frétt danska fjölmiðilsins Bo­liga.

Villan stendur við Ny­borgs­vej 375 í Kon­gens Lyng­by, um­lukin náttúru og með útsýni yfir vatnið.

Hún státar af 130 metra einka­strönd, sem gerir stað­setninguna enn eftir­sóknar­verðari. Næsti nágranni er for­sætis­ráðherra­bústaðurinn Marien­borg.

Villa Tusculum var reist árið 1882 og hefur staðið í yfir 140 ár við þetta vinsæla náttúru­svæði í útjaðri Kaup­manna­hafnar.

Fast­eigna­salan Ivan El­t­oft Niel­sen sá um söluna en eignin hafði verið á sölu í um tvö ár.

Selj­endur eignarinnar eru danski auðjöfurinn Lars Kolind og eigin­kona hans Vibeke Wesarg Riemer, sem keyptu villuna árið 2013 fyrir 45,5 milljónir danskra króna sam­kvæmt upp­lýsingum úr fast­eigna­skrá.

Þau hagnast því um tæpar 30 milljónir DKK á eigninni en ekki er búið að opin­bert hver keypti eignina.

Kaupandinn mun njóta 14 her­bergja á sam­tals 704 fer­metrum, auk þess sem lóðin sjálf er 4.108 fer­metrar að stærð.

Fleiri dýr­mæt fast­eigna­við­skipti hafa átt sér stað í Dan­mörku á árinu.

Í febrúar seldi milljarðamæringurinn Karsten Ree höll sína við Ved­bæk Strand­vej fyrir 130 milljónir danskra króna, en um er að ræða stærstu fast­eigna­við­skipti ársins í Dan­mörku.

Í apríl seldi for­stjóri skart­griparisans Pandora, Alexander La­cik, strand­villu sína í Ved­bæk fyrir 68,5 milljónir danskra króna.

For­vitni­legustu fast­eigna­við­skiptin, sam­kvæmt Børsen, voru þó þegar 20 fer­metra sumar­hús á eynni Møgelø í miðju vatninu Julsø í Sil­ke­borg var selt fyrir 2,7 milljónir danskra króna.

Eigninni fylgir 130 metra einka­strönd.