Samkeppnisstofnun hefur tekið saman skýrar og aðgengilegar starfsreglur fyrir fyrirtæki sem veita þjónustu á netinu. Reglurnar eiga við um öll fyrirtæki, einstaklinga og félög sem veita þjónustu á netinu. Til dæmis þurfa fasteignasölur að hlíta þessum reglum ef hægt er að skoða þær fasteignir sem í boði eru á heimasíðum þeirra og sama á við um verslanir sem bjóða upp á einhverja nettegund þjónustu. Í þessu samhengi er einnig vert að minna á siðareglur um netviðskipti sem SVÞ kom á laggirnar.
Upplýsingarnar Samkeppnisstofnunar eru birtar á heimasíðu stofnunarinnar. Þær eru annars vegar ætlaðar þjónustuveitendum og hins vegar fyrir neytendur. Upplýsingarnar fyrir þjónustuveitendur byggja á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og á lögum um húsgöngu og fjarsölusamninga. Þau fyrirtæki sem stunda rafræn viðskipti þurfa að hlíta þessum lögum. Til dæmis kveða lögin á um að neytendur hafa 14 daga heimild til að falla frá kaupum án þess að tilgreina ástæðu eða greiða viðurlög þegar kaup fara fram á netinu, í fjarsölu eða með símasölu.
Samkeppnisstofnun hefur eftirlit með að þessum lögum sé framfylgt. Í nýlegri skoðun stofnunarinnar á 10.000 vefsíðum á léninu -.is kom í ljós að víða skorti á að upplýsingagjöf væri sem skyldi. Algengt var að jafn sjálfsagðar upplýsingar og heimilisfang, sími, kennitala og slíkar upplýsingar vantaði.
Einnig taka upplýsingar Samkeppnisstofnunar á hvernig megi markaðssetja vöru og þjónustu á netinu, upplýsingar sem þarf að veita neytendum áður en pöntun er gerð, afgreiðsla pöntunar og meðferð hugsanlegra skila á vörunni. Að mati Samtaka verslunar og þjónustu er þessi samantekt virðingarvert framtak Samkeppnisstofnunar og ætti að auðvelda þeim sem veita netþjónustu að móta starfsreglur sínar.
SVÞ hefur gefið út siðareglur um netviðskipti að fyrirmynd þess sem gerist í nágrannalöndum okkar. Öllum seljendum vöru eða þjónustu er heimilt að vitna til þess að þeir starfi samkvæmt siðareglum SVÞ um netviðskipti en eru þá um leið skuldbundnir til að framfylgja þeim í einu og öllu.