Fótboltinn sem notaður var í 8-liða úrslitaleik Heimsmeistarakeppninnar 1986 á milli Englands og Argentínu er að fara á uppboð. Fótboltagoðsögnin Diego Armando Maradona skoraði tvö af frægustu mörkum fótboltasögunnar í þessum leik, en annað þeirra skoraði hann með hjálp „hendi guðs.“

Áætlað verð á boltanum er á bilinu 2,5 til 3 milljarðar punda, að því er kemur fram í grein BBC. Boltinn verður seldur á uppboði þann 16. nóvember. Uppboðinu verður streymt og geta mögulegir kaupendur skráð tilboð til 28. október.

Boltinn verður seldur á uppboði þann 16. nóvember.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ali Bin Nasser, dómarinn sem dæmdi hinn umdeilda leik og sá ekkert athugavert við guðsmark Maradona, er að selja boltann.

„Þessi bolti er hluti af fótboltasögunni. Nú er rétti tíminn til að deila honum með heiminum,“ var haft eftir Bin Nasser.

Tóku bikarinn með sér heim

Opnunarmark leiksins var skorað með hjálp „hendi guðs“ en þá kýldi Maradona boltanum í netið framhjá Peter Shilton markmanni Englendinga. Seinna mark Argentínu í leiknum var hið fræga „mark aldarinnar“ þar sem Maradona rakti boltann frá eigin vallarhelmingi, fór framhjá fimm útileikmönnum Englands, og setti boltann í netið. Argentína sigraði leikinn 2-1 og gerði síðan gott betur og vann HM, sem var haldið í Mexíkó þetta árið.

Fjöldi íþróttamuna hafa verið seldir í uppboði á undanförnum misserum og ýmis met hafa verið slegin. Þá var treyjan sem Maradona klæddist í fyrrnefndum 8-liða úrslitaleik seld fyrr á árinu á 7,4 milljónir punda, sem var þá nýtt heimsmet.

Það met var síðan slegið nú í ágúst síðastliðnum þegar hafnaboltakort af Mickey Mantle seldist á 10,3 milljónir punda. Í september seldist treyja, sem Michael Jordan klæddist í úrslitakeppni NBA árið 1998, á 8,7 milljónir punda.

Treyjan sem Maradona klæddist í 8-liða úrslitaleik Heimsmeistarakeppninnar 1986 á milli Englands og Argentínu var seld fyrr á árinu á 7,4 milljónir punda, sem var þá nýtt heimsmet.
© epa (epa)