Alþjóðlega fluguveiði-kvikmyndahátíðin RISE verður haldin í fimmta skiptið á fimmtudaginn. Iceland Angling Travel (IAT), sem er sérhæfð fluguveiðiferðaskrifstofa, stendur að hátíðinni. Kristján Benediktsson, sem í veiðiheiminum er þekktur sem Stjáni Ben, er framkvæmdastjóri IAT.
„RISE-kvikmyndahátíðin er haldin í Evrópu, Ástralíu og Nýja Sjálandi og ég er búinn að fá það staðfest að sýningin á Íslandi er langstærst," segir Kristján. „Frá árinu 2011 höfum við verið með þessa hátíð í Bíó Paradís og það hefur alltaf verið uppselt. Í ár langaði okkur til að breyta til og gefa fleirum kost á að koma. Þess vegna ákváðum við að vera með hátíðina í Háskólabíói. Stóri salurinn þar tekur tæplega þúsund manns og einnig er stórt sýningarsvæði í anddyrinu, sem við munum nýta fyrir veiðisýninguna."
„Geggjaðar" myndir
Fimm veiðimyndir verða sýndar á hátíðinni og eru þær allar með íslenskum texta. Sú stysta er um 10 mínútur og sú lengsta 45. Ein af myndunum er tekin upp á Íslandi og nefnist Yow - Icelandic for Yes. Í henni er fylgst með hópi veiðimanna egna fyrir fiski meðal annars í Haukadalsá, Vesturdalsá, Hofsá og á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal. Í myndinni eru einnig senur af mönnum á brimbrettum við strendur landsins.
„Myndirnar í ár eru geggjaðar," segir Kristján. „Ég er spenntastur fyrir Backcountry - North Island, þar sem sex silungaveiðimönnum er fylgt eftir á Nýja Sjálandi. Nick Reygaert, sem gerir þá mynd, er orðinn svo flinkur í því sem hann er að gera að það er alveg ótrúlegt. Myndirnar hans Nick kveikja ákveðnar í tilfinningar í hjartanu. Hann gerði meðal annars The Source myndirnar en ein af þeim var tekinn upp á Íslandi.
Aðrar myndir sem sýndar verða á hátíðinni eru Out of Touch, sem fjallar um nokkra leiðsögumenn sem fara án farsímans og veiða á flugu í sjó. Í myndinni Those Moments er leiðsögumönnum frá Alaska og Bahamas fylgt eftir. Að lokum er verður myndin Carpland sýnd en hún fjallar um vatnakarfaveiði í Bandaríkjunum.
Heimsþekktur fluguhnýtari
Á veiðisýningunni í Háskólabíói munu veiðiverslanir kynna vörur sínar, veiðileyfasalar munu kynna ár og vötn og þá mun Davie McPhail, heimsþekktur fluguhnýtari, sýna fluguhnýtingar. Hann hefur um 34 þúsund áskrifendur á Youtube .
Auk þessa verða fyrirlestrar í aðalsal Háskólabíós áður en kvikmyndahátíðin hefst. Þar verður meðal annars málstofa um stangaveiði og náttúruvernd á vegum samtakanna Contintental Trout Consvervation Fund. Össur Skarphéðinsson, sem barist hefur ötullega fyrir verndun ísaldarurriðans í Þingvallavatni, verður fundarstjóri. Málstofan hefst klukkan 17 og kvikmyndasýningin klukkan 20. Dagskránni lýkur síðan um klukkan 22.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn
Tölublöð
.