Steinsnar frá mathöllinni á Hafnartorgi Gallerý og rétt fyrir neðan þar sem stefnt er á að opna mathöll í húsi sem kennt hefur verið við Kaffi Reykjavík má finna eina af nýjustu mathöllum landsins – það er að segja þegar þetta er skrifað: Pósthús Mathöll.
Um er að ræða hlýlegan og notalegan stað sem ágætt er að tylla sér á og hefur þessi mathöll þar með ýmislegt fram yfir mathöllina Kúmen og Hlemm.
Hlýleikinn hverfur ekki þó að gestir séu að stíga inn úr slabbi og kulda. Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að viðskiptavinir séu þaulsetnari þarna í öllum veðrum þegar svo ber undir en í öðrum mathöllum.
Kóresk matargerð hefur notið vaxandi vinsælda í borginni undanfarin ár. Þá sérstaklega kóreskur götubiti – enn er bið á að almennilegt kóreskt grill opni á ný í Reykjavík.
Í Pósthús Mathöll er að finna staðinn Fuku Mama. Þar standa til boða í hádeginu smáréttir í hádeginu og auk stærri rétta. Í hádeginu er yfirleitt hægt að fá afbragðsgóð grilluð kjúklingaspjót sem eru borin fram með kimchi, súrsuðum hreðkum og hrísgrjónum ásamt ropvatni á ríflega 2500 krónur. Óhætt er að mæla með þessum rétti sem er afbragðsgóður: léttur í maga og þó svo að hann sé bragðmikill ætti hann að vera við allra hæfi. Þeir sem eru ekki kyrrsetumenn á vinnutíma geta einnig farið í flanksteik og þá svínarif í hádeginu.
Veitingarýnin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn, 23. febrúar 2023.