Fyrir nokkrum árum opnaði Matstöðin í litlum söluturni á Kársnesinu í Kópavoginum. Hróður staðarins barst víða og naut hann strax mikillar hylli. Svo mikla að eiganda skúrsins þótti Matstöðin skyggja á annan rekstur í kring.
Því flutti staðurinn á fyrstu hæðina á Höfðabakka 9 í Reykjavík þar sem Íslenskir aðalverktakar voru eitt sinn til húsa. Staðurinn sómir sér vel á þessum reit sem verður að teljast með þeim fallegri í borginni. Undirritaður hefur aldrei sótt í staðinn í hádeginu án þess að fullt hafi verið út úr dyrum. Segir það allt sem segja þarf um vinsældir staðarins.
Hér geta menn borðað eins og þeir geta í sig látið af góðum heimilismat fyrir sanngjarnt verð eða 2990 krónur fyrir máltíðina. Verður það að teljast rausnarlegt á þessum verðbólgutímum. Einnig er hægt kaupa klippikort sem gerir máltíðina enn hagstæðari. Á Matstöðinni eru menn ekki að dunda sér við að finna upp hjólið að nýju. Matseðillinn er fjölbreyttur og breytist frá degi til dags. Um er að ræða sígilda rétti sem raunhagkerfið hefur sóst í gegnum tíðina. Þrátt fyrir að gamli skólinn ráði ríkjum á Matstöðinni hafa eigendur hans komið móts við þarfir nútímans og bjóða daglega upp á vegan-rétti. En það eru hinir hefðbundnu kjöt- og fiskréttir sem heilla.
Þeir sem hafa metnað til þess að klífa upp á hæsta tind íslenskrar matarmenningar geta þannig tekið sex daga mataráskorun. Svo handahófskennd dæmi séu tekin af matseðlinum þá væri hægt að fara í grísasnitzel með brúnuðum kartöflum og villisveppasósu á mánudegi. Á þriðjudegi væri farið í hakkabuff og spælegg með brúnni sósu. Lambafillet með bakaðri kartöflu og sveppasósu tæki svo við á miðvikudeginum. Fimmtudagurinn tæki svo við með sinni kalkúnabringu og salvíusmjörsósu og auðvitað er það lambalæri og bernaise á fössaranum. Tilvalið er svo að loka hringnum með pizzahlaðborði á laugardegi. Hvíldardagurinn er haldinn heilagur á Matstöðinni.
Eru allir hvattir til að setja slíkt ferðalag með bragðlaukana á kappmálskrána svo vísað sé til þýðingar skáldkonunnar Sigurbjörgu Þrastardóttir á hugtakinu „bucket list“. Matstöðin er góður kostur þegar ákveðið hvert skuli halda í hádegismat og fyllir upp í það mikla skarð sem var skilið í matarmenningu borgarinnar eftir að Samkaupsmenn ákváðu að hrekja veitingastaðinn Hjá Dóra úr Mjóddinni.
Veitingarýnin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.