Þó svo að menn taki nótu finna allir fyrir dýrtíðinni – ekki síst í hádeginu. Sökum þessa er vert að benda lesendum Viðskiptablaðsins á að á golfvöllum höfuðborgarsvæðisins er að finna fjölmarga prýðilega veitingastaði sem bjóða upp á góðan mat á hagstæðu verði.

Einn þeirra er Öðlingur en hann er að finna í Heiðmörkinni við hinn glæsilega Urriðavöll sem Golfklúbburinn Oddur gerir út. Urriðavöllur er án vafa fallegasti golfvöllur landsins og umhverfið tignarlegt – sérstaklega þegar líða tekur á haustið og roðagyllt áferð gróðursins kallast á við aðra liti haustsins.

Menn eru ekki að reyna finna upp hjólið þegar kemur að veitingasölu á golfvöllum. Hamborgarar, klúbb- og steikar-samlokur eru ráðandi í bland við aðra rétti. Vafalaust myndi færasti rannsóknarblaðamaður Heimildarinnar draga þá ályktun að nálægð Urriðavallar við Garðabæ setji mark sitt á matseðilinn á Öðlingi. Þar er að finna blómkálsvængi, grillaðar risarækjur og fleira sem margir tengja við íslensku sumarkonuna sem eins og allir vita nam land á Íslandi í Garðabæ árið 2018. Stofnstærð hennar er einna stærst í nágrenni Urriðavallar ef út í það er farið.

Allt eru þetta prýðilegir réttir. Það sama gildir um hamborgarana og samlokurnar og eru síðarnefndu réttirnir betri og á hagstæðara verði en til að mynda á veitingahúsum í miðborginni. Öðlingur er að sama skapi með rétt dagsins og þar er hægt að ganga að góðum heimilismat, framreiddum af metnaði en án stæla, vísum. Sérstaklega er mælt með því að menn geri sér ferð á Öðling þegar kótiletturnar eru í boði. Þær eru betri þar en gengur og gerist. Mun betri.

Samandregið er vel þess virði að gera sér ferð í Heiðmörkina og fá sér hádegismat á Öðlingi þó svo að kylfurnar séu ekki með í för. Umhverfið er óviðjafnanlegt og maturinn góður og verðlagður á sanngjarnan hátt.

Veitingarýnin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.