Evrópa hefur lengi vel verið þekkt fyrir bragðgóðan mat og myndu eflaust margir hugsa til Frakklands eða Ítalíu ef þeir skyldu vera beðnir um að nefna dæmi um þau lönd sem bjóða upp á það besta sem til er í álfunni.
Eitt best geymda leyndarmál kemur hins vegar úr Kákasusfjöllunum milli Evrópu og Asíu en nágrannaríki þessa lands hafa tekið matnum þeirra fagnandi.
Georgía er staðsett á gatnamótum Rússlands, Aserbaísjan, Armeníu og Tyrklands og býr þjóðin yfir mörg þúsund ára reynslu í bæði mat- og víngerð.
Maturinn frá Georgíu endurspeglar einnig landslagið en þrátt fyrir afskekkta staðsetningu þá var Georgía mikilvægur miðpunktur viðskipta milli austurs og vesturs. Kaupmenn fóru í gegnum landið í gegnum aldirnar og skildu erlendir innrásarherir einnig eftir sín áhrif á matinn.
Georgískir réttir eru því nokkurs konar sambland af matvælum frá Íran, Asíu, Tyrklandi og Miðjarðarhafinu.

Hefðbundin georgísk matargerð sameinar ferskt kjöt, ferskt grænmeti, kryddjurtir og er gjarnan talin vera ein sú hollasta í heimi. Uppáhaldið hjá mörgum eru hinar svokölluðu Khinkali-kjötbolludumplingar eða Khachapuri-brauð, sem samanstendur yfirleitt af osti, eggjum eða kjöti.
Það þarf hins vegar ekki að fara til Georgíu til að upplifa þetta leyndarmál. Í flestum borgum í Evrópu má finna georgískan veitingastað sem býður upp á þennan æðislega mat sem er síðan skolað niður með sætu georgísku víni.
Þeir Íslendingar sem heimsækja eða búa í Kaupmannahöfn geta einnig gert sér ferð til veitingastaðarins Mimino við Østerbrogade í norðurhluta borgarinnar. Þar er hægt að smakka það besta sem Georgía hefur upp á að bjóða ásamt því að upplifa list og menningu þjóðarinnar í hjarta Köben.